Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu. Gerð var húsleit á nokkrum stöðum í umdæminu og utan þess. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var meðal annars ráðist í aðgerðir á Suðurlandi.
Sérsveit ríkislögreglustjóra og önnur lögregluembætti aðstoðuðu við aðgerðirnar, að því er segir í tilkynningu. Ekki hefur verið ákveðið hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir þremenningunum. Lögregla segir í tilkynningu að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
Maðurinn sem skotinn var til bana í Rauðagerði rétt fyrir miðnætti á laugardagskvöld var frá Albaníu en bjó hér á landi með íslenskri eiginkonu sinni og ungu barni. Þau eiga von á öðru barni. Rannsókn málsins beinist meðal annars að því hvort árásin tengist uppgjöri í undirheimunum í tengslum við skipulagða brotastarfsemi.
Karlmaður frá Litháen var hnepptur í gæsluvarðhald vegna málsins fljótlega eftir árásina. Greint var frá því í gær að lögregla leitaði íslensks karlmanns í tengslum við málið. Ekki hafa fengist upplýsingar um það hvort hann sé á meðal þeirra sem handteknir voru í gær.
Fréttablaðið hefur eftir heimildum sínum að þrír menn, einn Íslendingur og tveir útlendingar, hafi verið handteknir í húsi rétt fyrir utan Selfoss í nótt í tengslum við morðið.
Fréttin hefur verið uppfærð.