Lífið

Segir sjálfshatrið þyngja mann miklu meira en kílóin

Stefán Árni Pálsson skrifar
Arna starfar í dag sem þjálfari í fullu starfi.
Arna starfar í dag sem þjálfari í fullu starfi.

Rúm þrjú ár eru liðin frá því Arna Vilhjálmsdóttir sigraði í sjónvarpsþættinum Biggest Loser með því að missa rúm sextíu kíló á örfáum mánuðum.

Hún hefur varla stoppað síðan og fyrir nokkrum vikum hóf hún störf sem þjálfari í fullu starfi auk þess sem hún einbeitir sér að því á Instagram að hvetja fólk áfram í hreyfingu og minna stöðugt á að það sé ekkert samhengi milli kílóafjölda og virði manneskju.

Arna sótti þrisvar um inngöngu í Biggest Loser á sínum tíma, eftir að hafa reynt allt til að léttast, eins og hún segir sjálf.

„Ég var orðin pínu vonlaus þegar ég sé að þeir ætli að gera eina seríu í viðbót og þá hugsaði ég að það væri merki,“ segir Arna.

Drakk ekkert vatn

„Ég vann en það tók verulega á og ég fór í sjúkrabíl, ofþornaði og ég var ekkert að spá í því að taka vatn og fannst það ekki brjálæðislega mikilvægt verandi á æfingum fjórum sinnum á dag. Veit ekki alveg hvað ég var að spá. Þetta var ótrúlega gaman og ég var staðráðin í því að ég ætlaði bara ekki að tapa. Við getum ekki spilað saman fjölskyldan, við erum öll svo kappsöm. Ég var ekki að fara vera í topp þremur og ekki vinna.“

Keppnisskapið hefur lengi fylgt Örnu sem æfði fjölmargar íþróttir sem barn heima í Neskaupstað, en flosnaði upp úr þeim eftir ítrekaðar athugasemdir skólafélaga um holdafar og þyngd. Hún segir að eftir að tökum á þáttunum lauk hafi hún farið að æfa minna, enda engin leið að halda sama dampi í daglegu lífi og í þáttunum. Hún segir líka að það sé ekki endilega best að einblína bara á að missa kíló.

Fannst loks gaman

„Þegar maður er búin að vera í einhverju svona brjáluðu dæmi, eitthvað sem er ekki hægt að mæla á neinn kvarða, þetta er svo mikil klikkun og þegar maður kemur út úr svona verður maður að finna ákveðið jafnvægi. Maður er búin að einbeita sér að kílóum í ár og það tekur rosalega langan tíma að gera það ekki lengur. Ég fékk algjört ógeð að vera í rækt og ég fór ekki inn í rækt í þrjá og hálfan mánuð. Svo einhvern veginn leitaði ég aftur til Gurrýjar þegar ég var orðin tilbúin og síðan þá hef ég ekkert stoppað. Þá fann mér að mér finnst þetta gaman.“

Eins og algengt er þyngdist Arna eftir að þátttöku í keppninni lauk og hún segir að það hafi reynst sér erfitt.

„Þáverandi kærastinn minn sagði við mig, Arna þú veist alveg að þú átt eftir að þyngjast aftur og ég svaraði honum, já kannski mesta lagi um svona fimm kíló. Svona kemur í ljós að maður var í áttfaldri búbblu í einhverju sem maður getur ekki haldið við í daglegu lífi. Mér fannst mjög erfitt fyrsta að sjá mig fara upp og skammaði mig mjög mikið fyrir það.“

Arna er sagnfræðingur og auk þess með BA gráðu í ensku. Eftir þættina ákvað hún að hana langaði að verða kennari og hóf fljótlega störf í Hraunavallaskóla í Hafnarfirði.

„Það er eitthvað sem ég hafði aldrei þorað að gera áður en ég fór í þetta. Þetta gaf mér líka sjálfstraust að gera líka hluti sem mig langaði og vissi að ég ætti að gera.“

En þótt kennslan í grunnskólanum hafi átt hug hennar allan í nokkur ár ákvað hún að stökkva á tækifærið þegar henni bauðst staða þjálfara í fullu starfi í líkamsræktarstöðinni Kvennastyrk í Hafnarfirði, en þar hafði hún verið með vinsæl námskeið samhliða vinnunni í nokkurn tíma.

Í dag þjálfar hún upp í sex klukkutíma á dag og segir að það gefi sér einna mest þegar konur uppgötva að þær geta meira en þær halda.

Arna léttist um sextíu kíló þegar hún tók þátt í Biggest Loser.

Arna lArna byrjaði á Instagram fyrir rúmum tveimur árum og hvetur þar fólk áfram í líkamsræktinni um leið og hún undirstrikar mikilvægi þess að bera virðingu fyrir eigin líkama. Sjálf segist hún ekki sjá eins mikið eftir neinu og allri þeirri orku sem hún eyddi í að hata líkama sinn árum saman enda hafi slíkt sjálfsniðurrif eingöngu neikvæðar afleiðingar.

Dælir út myndum af líkama sínum

„Ég fór að taka myndir af mér og skoða mig, standa fyrir framan spegilinn og hugsa, og hvað? Það er ekkert slæmt við þetta. Þetta eru bara umbúðir. Það er ekkert að gera þig verri eða betri þó þú sért að þyngjast eða léttast. Þetta voru rosalega lítil skref fyrst en ég bara hélt áfram þó ég hafi ekki trúað því fyrst, að segja þetta. Þá kemur þetta á endanum. Ég fæ allskonar viðbrögð og mest jákvætt. Þetta eru bara ákveðnar tilraunir og ég er með allskonar fellingar út um allt. Bara það að ég sá aldrei neinn sem var eins og ég. Ef ég get dælt út myndum af mér og einhver sjái, vó þarna er einhver sem lítur út eins og ég og hefur það bara fínt. Þá hugsaði ég að ég myndi vilja halda því áfram.

Arna hefur sjálf gagnrýnt að það sé talað um að þetta krefjist mikils hugrekki.

„Það þarf alveg jafn mikið hugrekki fyrir hvern sem er að sýna á sér líkamann og fyrir mig. Ég er ekkert hugrakkari heldur en einhver sem er að sýna sixpakkið á sér. Það er ekkert öðruvísi við það, nema umbúðirnar okkar líta öðruvísi út.“

Arna segist í raun hafa hatað líkamann sinn í mörg ár.

„Það að hata og eyða svona mikilli orku í að hata er ótrúlega lýjandi. Það þyngir mann miklu meira heldur en einhver kíló utan á.“

Hér að neðan má sjá innslagið í Íslandi í dag á Stöð 2 sem var sýnt í gærkvöldi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.