Þar hafði vörubíll með eftirvagn farið á hliðina. Ekki voru skráð nein slys á fólki að því er segir í dagbók lögreglu en farmur bílsins, fiskur og slor, dreifðist um veginn og utan vegar.
Óskað var eftir aðstoð krana til að koma vagninum aftur á hjólin og saltara frá Vegagerðinni vegna hálku sem hafði myndast. Þá var einnig haft samband við björgunarsveit til þess að reyna að bjarga verðmætum.
Á tíunda tímanum í gærkvöldi var bíll stöðvaður í Hafnarfirði. Ökumaðurinn er grunaður um akstur án réttinda og hafði engin skilríki meðferðis.
Maðurinn reyndist svo vera eftirlýstur í öðru máli og var hann því vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Skömmu eftir klukkan tvö í nótt var bíll síðan stöðvaður á Kringlumýrarbraut eftir hraðamælingu. Mældist bíllinn á 141 km/klst en leyfilegur hámarkshraði er 80 km/klst.