Innlent

Í gæsluvarðhaldi til 19. febrúar vegna manndráps við Rauðagerði

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Rannsóknardeild lögreglu við rannsókn á vettvangi í dag.
Rannsóknardeild lögreglu við rannsókn á vettvangi í dag. Vísir/Vésteinn

Karlmaður á fertugsaldri var í kvöld úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudagsins 19. febrúar á grundvelli rannsóknarhagsmuna, að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í þágu rannsóknar hennar á manndrápi við Rauðagerði í Reykjavík um miðnætti í gærkvöldi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Líkt og fréttastofa greindi frá fyrr í dag var karlmaður á fertugsaldri skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði í Reykjavík skömmu fyrir miðnætti síðustu nótt. 

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í nótt tilkynning um slasaðan karlmann á fertugsaldri fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði í Reykjavík. Maðurinn var svo fluttur á Landspítla þar sem hann var úrskurðaður látinn. Heimildir fréttastofu herma að skömmu síðar hafi lögregla handtekið karlmann á fertugsaldri í Garðabæ vegna gruns um aðild að málinu.

Málið sé talið tengjast einhvers konar uppgjöri í undirheimunum. Hinn látni og sá sem er í haldi lögreglu eru báðir af erlendum uppruna. Í tilkynningu frá lögreglu segir að áverkar eftir skotvopn hafi fundist á líki mannsins. Heimildir fréttastofu herma að hann hafi verið skotinn nokkrum sinnum með byssu.

Þegar fréttastofa var á vettvangi í dag var tæknideild lögreglunnar að störfum. Studdist hún meðal annars við málmleitartæki og dróna sem sveif yfir vettvangi. Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, vildi hvorki veita viðtal né tjá sig um það að öðru leyti enda málið á viðkvæmu stigi. Í tilkynningu frá lögreglu frá því fyrr í dag segir að rannsókn málsins sé í algjörum forgangi. Í tilkynningu sem barst fjölmiðlum vegna málsins nú í kvöld segir að ekki sé unnt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×