Innlent

Áfangasigur 203 íslenskra kvenna í Frakklandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Talið hefur verið að um 300 þúsund konur í 65 löndum, þar á meðal Íslandi, hafi notað gallaða brjóstapúða frá PIP.
Talið hefur verið að um 300 þúsund konur í 65 löndum, þar á meðal Íslandi, hafi notað gallaða brjóstapúða frá PIP. Getty

Áfrýjunardómstóll í Frakklandi hefur staðfest bótaskyldu þýska eftirlitsfyrirtæksins TÜV Rheinland í máli 203 íslenskra kvenna og fleiri í PIP-sílikonmálinu svokallaða. Alls eru um níu þúsund konur hluti af tveimur málsóknum en konurnar krefjast skaðabóta fyrir heilsutjón sem þær telja púðana hafa valdið sér.

Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður íslenska hópsins, segir í samtali við Vísi að um áfangasigur sé að ræða sem skipti ótrúlega miklu máli. Niðurstöðunni verði væntanlega áfrýjað til Hæstaréttar af þýska fyrirtækinu.

Að sögn Sögu Ýrr getur Hæstiréttur í Frakklandi aðeins staðfest dóma eða sent þá aftur til meðferðar hjá áfrýjunardómstól. Til samanburðar þá geta efri dómstig á Íslandi sýknað og sakfellt í einstökum málum og þannig ekki jafnháðir niðurstöðu á lægra dómstigi eins og Hæstiréttur í Frakklandi.

Talið hefur verið að um 300 þúsund konur í 65 löndum, þar á meðal Íslandi, hafi notað gallaða brjóstapúða frá PIP. Mikill fjöldi hefur látið fjarlægja þá eftir að í ljós kom að iðnaðarsílíkon var notað við framleiðslu þeirra.

Málið vakti mikla athygli þegar það kom upp árið 2011 en eigandi PIP var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir svik árið 2013.

Fram kom í fréttum árið 2018 að um 204 íslenskar konur væri að ræða en Saga Ýrr segir í samtali við Vísi að þær séu 203.

Ríkisútvarpið greindi fyrst frá niðurstöðu áfrýjunardómstólsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×