Þórólfur segir fólk í sóttkví og einangrun þurfa að gæta að sér. Vísir/Vilhelm
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir fjögur smit sem komu upp á heimili innanlands í gær séu áminning um að faraldurinn sé ekki búinn. Hættan á að smit berist hingað til lands í gegnum landamærin sé enn fyrir hendi.
Fjórir greindust með Covid-19 innanlands í gær og tengdust allir. Að sögn Þórólfs var um að ræða einstakling sem greindist með Covid-19 á landamærum, fór í einangrun en tókst samt að smita sitt nánasta fólk.
„Þetta er bara áminning um að þetta er ekkert búið. Það er enn þá hætta á að fólk getur smitast, og smit blossað upp,“ segir Þórólfur.
„Við erum áfram að biðla til fólks, sem hefur staðið sig mjög vel í gegnum áramót, jól og annað, að það er mjög mikilvægt að halda þetta út. Við getum fengið þetta allt í bakið áður en við vitum af.“
Eins og raunin hefur verið undanfarnar tvær vikur er Ísland áfram eina landið sem merkt er með grænum lit á litakóðunarkorti Sóttvarnastofnunar Evrópu vegna kórónuveirufaraldursins.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að ef fram haldi sem horfir í fjölda innanlandssmita hér á landi muni hann taka frekari afléttingar til skoðunar. Hann leggur þó enn áherslu á að grunnreglan sé að flýta sér hægt. Erlendir miðlar sýna stöðunni á Íslandi áhuga enda ástandið í mörgum nágrannalöndunum afar erfitt.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.