Erlent

Loddaranum Önnu Sor­okin sleppt úr steininum

Atli Ísleifsson skrifar
Anna Sorokin í dómsal í New York árið 2019.
Anna Sorokin í dómsal í New York árið 2019. Getty

Önnu Sorokin, þýskri konu sem þóttist vera erfingi mikilla auðæfa og sótti um árabil veislur yfirstéttarfólks í New York, hefur verið sleppt úr fangelsi. Sorokin var árið 2019 dæmd í fangelsi fyrir umfangsmikinn stuld eftir að hafa svikið rúmlega 200 þúsund Bandaríkjadala, um 25 milljónir króna, úr út bönkum og lúxushótelum.

Sorokin var um tíma virk í félagslífi fína fólksins í New York þar sem hún gekk undir nafninu Anna Delvey. Á nokkurra ára tímabili sveik hún fé út úr vinum og fyrirtækjum en hún hafði upphaflega flutt til New York í þeirri von um að opna menningarklúbb.

Sextán ára gömul hafði hún flutt frá Rússlandi til Þýskalands til að stunda nám í skóla en hætti stuttu síðar og fluttist til Parísar. Þaðan lá leiðin til New York þar sem svikin hófust.

Sorokin var sleppt úr fangelsi í gær og segir í frétt BBC að hún gæti nú átt yfir höfði sér brottvísun úr landi og því verið send aftur til Þýskalands.

Eftir að upp komst um svikin sagði Sorokin í viðtali við New York Times að hún sæi ekki eftir neinu. Þrátt fyrir að hafa hagnast á svindlinu hafi svikin ekki snúist um peninga, heldur völd.

Fyrir fáeinum mánuðum baðst Sorokin þó afsökunar á gjörðum sínum þegar hún kom fyrir nefnd sem úrskurðar um möguleika fanga á reynslulausn.

Anna Sorokin, þá þekkt sem Anna Delvey, á viðburði árið 2014.Getty

Sorokin laug því á sínum tíma að hún ætti um 60 milljónir Bandaríkjadala í sjóðum í Evrópu og tókst með því að halda uppi dýrum lífsstíl – bjó á dýru hóteli í New York og borðaði á dýrum veitingastöðum. Tókst henni meðal annars að fá um 100 þúsund dala yfirdráttarlán í banka með því að leggja fram fölsuð skjöl um „eignir“ sínar í Evrópu.

Shonda Rhimes með þætti í vinnslu

Saga Sorokin rataði í fjölmiðla árið 2018 eftir mikla umfjöllun New York Magazine. Netflix vinnur nú að gerð sjónvarpsþátta um mál Sorokin þar sem Shonda Rhimes, konan á bak við Grey‘s Anatomy, kemur meðal annars að framleiðslunni.

Í tengslum við framleiðslu þáttanna hefur Sorokin fengið 320 þúsund dala þóknun, sem Insider segir að hún hafi notað til að greiða niður skuldir sínar við banka og upp í aðrar sektargreiðslur.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×