Fótbolti

Pavard tryggði Bayern heims­meistara­titilinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Bayern fagna sigurmarki kvöldsins.
Leikmenn Bayern fagna sigurmarki kvöldsins. Mahmoud Hefnawy/Getty Images

Bayern München tryggði sér í kvöld sigur á HM félagsliða í knattspyrnu með 1-0 sigri á Tigres frá Mexíkó.

Leikurinn fór fram á Education City-vellinum í Al Rayyan í Katar og þó Bæjarar hafi veirð sterkari aðilinn frá upphafi til enda þá tókst Evrópumeisturunum ekki að breyta yfirburðum sínum út á velli í mörk.

Jos­hua Kimmich kom Bayern yfir strax á 19. mínútu leiksins með góðu skoti utan teigs en þar sem Robert Lewandowski var í rangstöðu þá var framherjinn talinn hafa áhrif á leikinn og markið því dæmt af.

Fór það því svo að staðan var markalaus í hálfleik en þegar rétt tæpur klukkutími var liðinn komst Bayern yfir þökk sé marki franska varnarmannsins Benjamin Pavard. Lewandowski með stoðsendinguna og bætti þar með upp fyrir rangstöðuna í fyrri hálfleik.

Reyndist það eina mark leiksins og Bæjarar því orðnir heimsmeistarar ásamt því að vera ríkjandi Evrópu- og Þýskalandsmeistarar. 

Að leik loknum var Lewandowski valinn maður mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×