Fótbolti

Íslenska landsliðið fer ekki til Frakklands

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið fer ekki til Frakklands eins og til stóð.
Íslenska landsliðið fer ekki til Frakklands eins og til stóð. vísir/vilhelm

Ákveðið hefur verið að íslenska kvennalandsliðið í fótbolta taki ekki þátt í æfingamótinu sem fyrirhugað var að færi fram í Frakklandi dagana 17.-23. febrúar.

Samkvæmt KSÍ er ákvörðunin tekin vegna stöðunnar í Evrópu vegna kórónuveirufaraldursins.

Noregur hafði áður dregið lið sitt úr keppni vegna þeirra ferðatakmarkana sem eru í gildi vegna faraldursins. Eftir stóðu lið Frakklands, Sviss og Íslands, og franskir miðlar greindu frá því í gær að leit stæði yfir að liði til að fylla í skarð Noregs. Nú er hins vegar ljóst að Ísland verður að minnsta kosti ekki með.

Leikirnir í Frakklandi áttu að vera þeir fyrstu hjá Íslandi undir stjórn nýs þjálfara, Þorsteins Halldórssonar, en nú er ljóst að bið verður á því að hann velji sinn fyrsta landsliðshóp. 

Samkvæmt tilkynningu frá KSÍ eru næstu leikir landsliðsins vináttuleikir dagana 5.-13. apríl. Næstu leikir í undankeppni eru áætlaðir í haust þegar undankeppnin fyrir HM í Ástralíu á að hefjast. Ísland spilar svo í lokakeppni EM sumarið 2022 eftir að hafa tryggt sér sæti þar 1. desember síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×