Fótbolti

Óvissa ríkir um fyrstu landsleiki Íslands undir stjórn nýs þjálfara

Sindri Sverrisson skrifar
Ísland vann sér inn sæti á EM undir lok síðasta árs en óvíst er hvenær fyrstu leikir liðsins á þessu ári fara fram.
Ísland vann sér inn sæti á EM undir lok síðasta árs en óvíst er hvenær fyrstu leikir liðsins á þessu ári fara fram. vísir/vilhelm

Til stóð að Þorsteinn Halldórsson, nýr þjálfari kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu, myndi í dag tilkynna sinn fyrsta landsliðshóp. Því hefur verið frestað og óvíst er að af sterku æfingamóti, sem Íslandi var boðið á, verði.

Ísland átti að mæta Frakklandi, Noregi og Sviss dagana 17.-23. febrúar í Sedan í Frakklandi. Samkvæmt upplýsingum frá KSÍ hafa Norðmenn nú hins vegar ákveðið að hætta við þátttöku í mótinu, vegna kórónuveirufaraldursins.

Svo virðist sem að samkvæmt sóttvarnareglum í Noregi hefðu leikmenn búsettir þar þurft að fara í 10 daga sóttkví við heimkomuna til Noregs eftir mótið. Þá mega leikmenn sem spila í Bretlandi ekki fljúga til Frakklands samkvæmt reglum þar í landi.

Jóhann Ólafur Sigurðsson hjá samskiptadeild KSÍ segir að nú bíði menn þess að vita hvort mótið í Frakklandi fari fram.

Næstu leikir Íslands í undankeppni fara væntanlega fram næsta haust þegar undankeppni fyrir HM 2023 á að hefjast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×