Erlent

Meira en þúsund manns hand­teknir í mót­mælum í Rúss­landi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hundruð mótmælenda komu saman í Moskvu í gær til að mótmæla dómnum yfir Navalní.
Hundruð mótmælenda komu saman í Moskvu í gær til að mótmæla dómnum yfir Navalní. Getty/Sefa Karacan

Nærri 1400 manns voru handteknir í Rússlandi í gær eftir mótmæli í kjölfar fangelsisdóms yfir stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní. Líkt og um helgina kom til átaka á milli mótmælenda og lögreglu.

Þannig sýna myndskeið sem deilt hefur verið á samfélagsmiðlum hvernig lögregla lemur á mótmælendum með kylfum.

Navalní var dæmdur í þriggja og hálfs árs langt fangelsi í gær eftir að hafa rofið skilorð en þar sem hann hefur verið í stofufangelsi í eitt ár mun hann sitja inni í tvö og hálft.

Navalní sneri aftur til Rússlands frá Þýskalandi í janúar eftir að eitrað var fyrir honum í ágúst með taugaeitri. Hann heldur því fram að Vladimir Pútín, Rússlandsforseti, hafi fyrirskipað eitrunina en rússnesk stjórnvöld hafa neitað fyrir allar slíkar ásakanir.

Evrópusambandið, Bandaríkin og Bretland hafa öll fordæmt dóminn yfir Navalní og krafist þess að hann verði látinn laus. Það hefur Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, einnig gert.

Hundruð mótmælenda komu saman í höfuðborginni Moskvu eftir að dómurinn var kveðinn upp. Ekki leið á löngu þar til ofbeldi braust út og lögregla hóf að berja á mótmælendum og handtaka þá.

Rússnesku mannréttindasamtökin OVD-Info segja að 1116 manns hafi verið handtekin í Moskvu í gær og 246 í Sankti Pétursborg, næststærstu borg landsins. Þá hafi fimmtán aðrir verið handteknir í smærri borgum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×