Innlent

Skotárásin rannsökuð sem valdstjórnarbrot

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Talið er að skotið hafi verið með riffli á bíl borgarstjóra fyrir tæpum tveimur vikum. 
Talið er að skotið hafi verið með riffli á bíl borgarstjóra fyrir tæpum tveimur vikum.  Vísir/Sigurjón

Skotárás sem gerð var á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra fyrir tæpum tveimur vikum er rannsökuð sem brot gegn valdstjórninni.

Þess vegna fer héraðssaksóknari með rannsókn málsins en ekki lögreglan á höfuðborgarsvæðinu. Þetta segir Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, í samtali við Vísi.

„Þetta er í raun og fyrst og fremst valdstjórnarbrot. Það er verið að skoða þetta sem árás á opinbera starfsmenn og samkvæmt lögum á að rannsaka það hjá héraðssaksóknara,“ segir Kolbrún.

Ástæðan fyrir því að héraðssaksóknari rannsakar valdstjórnarbrot er að mikill meirihluti þeirra beinist gegn lögreglu.

„En svo auðvitað eru undir allir aðrir opinberir starfsmenn, eins og barnaverndarstarfsmenn, starfsmenn félagsþjónustu, borgarstjóri og fleiri,“ segir Kolbrún.

Gæsluvarðhald yfir íslenskum karlmanni um sextugt sem grunaður er um að hafa skotið með riffli á bíl borgarstjóra og inn um rúður á skrifstofu Samfylkingarinnar í janúar var í gær framlengt til föstudags. Maðurinn var handtekinn á laugardag og úrskurðaður í tveggja daga gæsluvarðhald.

Það var svo framlengt í gær á grundvelli rannsóknarhagsmuna og þess að maðurinn er talinn hættulegur. Hann er ekki í einangrun. Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu.

Annar maður var einnig handtekinn vegna málsins í síðustu viku en honum var sleppt að lokinni skýrslutöku. Talsvert magn af skotvopnum fannst á heimili þess manns.

Aðspurð hvernig rannsókn málsins miði segir Kolbrún að hún gangi ágætlega.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.