Innlent

Of margir í pottinum á Akureyri og aðgengi að lauginni lokað

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Sundlaug Akureyrar.
Sundlaug Akureyrar. mynd/ja.is

Lögreglan á Norðurlandi eystra hélt úti sérstöku eftirliti með veitingastöðum og hótelum hvað varðar sóttvarnir um helgina. Þá hafði lögreglan afskipti af sundlaugargestum í Sundlaug Akureyrar eftir að tilkynning barst um að heldur þétt væri setið í heita pottinum og var aðgengi að sundlauginni lokað það sem eftir lifði dags að kröfu lögreglu.

Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra nú í kvöld. „Síðdegis á laugardaginn fékk lögreglan tilkynningu um að mikill mannfjöldi væri í Sundlaug Akureyrar og þá sérstaklega í heitu pottunum. Lögreglumenn fóru á vettvang og í ljós kom að heildarfjöldi gesta var vel innan leyfilegra marka en í pottunum var þétt setið,“ segir í færslunni.

„Var aðgengi að sundlauginni lokað að kröfu lögreglu það sem eftir var dags og starfsfólki gert að koma betra skipulagi á hlutina sem og að bæta úr merkingum við heitu pottana áður en að starfsemin yrði opnuð aftur daginn eftir.“

Stefnt er að því að á næstu dögum verði farið yfir þessi mál á vettvangi lögreglunnar og metið hvort þessi heimsókn lögreglu í sundlaugina muni hafa einhverja eftirmála.

Eftirlitið með hótelum og veitingastöðum mun hafa leitt í ljós að ástandið hafi verið gott en að svigrúm væri til bætingar, bæði hvað lítur að rekstraraðilum og viðskiptavinum.

„Ljóst er að snjórinn hér Norðanlands hefur mikið aðdráttarafl, sem er hið besta mál, en áfram þurfum við að halda uppi sóttvörnum og gæta vel að okkur,“ segir í færslu lögreglunnar sem sjá má í heild sinni hér að neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×