Innlent

Hélt hníf upp að hálsi tólf ára pilts eftir „dólgs­læti“ fyrir utan Kvikk

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Drengirnir áttu fyrst í samskiptum við manninn fyrir utan verslun Kvikk, skammt frá Smáralind í Kópavogi.
Drengirnir áttu fyrst í samskiptum við manninn fyrir utan verslun Kvikk, skammt frá Smáralind í Kópavogi. Vísir/vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í síðustu viku karlmann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir hótanir og brot gegn barnaverndarlögum. Maðurinn bar hníf upp að hálsi tólf ára pilts, sem hann sagði hafa verið með „dólgslæti“ ásamt félögum sínum fyrir utan verslun fyrr sama dag.

Drengirnir skýrðu svo frá að þeir hefðu farið í verslun Kvikk skammt frá Smáralind í janúar 2019, að því er fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjaness sem birtur var í dag. Þar hefðu þeir tekið eftir manni sem virtist horfa mikið á einn þeirra úr bifreið sinni fyrir utan búðina. Þeir hefðu farið inn í búðina og maðurinn svo gefið sig á tal við þá er þeir komu út.

Þeim hefði staðið ógn af honum og farið í strætóskýli við Fífuhvammsveg. Þá hefði maðurinn komið aftur að þeim, gripið í úlpu eins þeirra og sett hníf að hálsi hans. Hann hefði sagt við drenginn að hann ætti ekki að sýna sér óvirðingu.

Varð reiður og pirraður og vildi „klára samræðurnar“

Maðurinn sagði fyrir dómi að piltarnir hefðu verið með „dólgslæti“ fyrir utan búðina og „verið að gefa honum augnaráð“. Inni í búðinni, þar sem kona hans hefði verið í röð, hefðu hin meintu dólgslæti haldið áfram – og enn áfram er þeir áttu í samskiptum við manninn aftur á bílastæðinu fyrir utan.

Maðurinn lýsti því svo að á leið heim hefði hann séð piltana standa við strætóskýlið, orðið „reiður og pirraður“ og ákveðið að „klára þessar samræður“. Þegar maðurinn kom til piltanna við strætóskýlið hefði einn þeirra spurt hvað hann ætlaði að gera og maðurinn þá tekið í úlpu hans með báðum höndum. Hann hefði sagst ekki ætla að gera neitt en slíku væri ekki að treysta þegar menn kæmu svona fram við ókunnuga. 

Maðurinn neitaði þó fyrir dómi að hafa tekið upp hníf. Þá kom fram að maðurinn hefði dregið buff upp fyrir andlitið á sér svo hann þekktist ekki áður en hann fór til drengjanna.

Dómurinn taldi framburð drengjanna þess efnis að maðurinn hefði borið hníf upp að hálsi eins þeirra trúverðugan. Maðurinn var að endingu dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða rúma milljón króna í laun verjanda síns.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×