Erlent

Sarah Sanders vill verða næsti ríkis­stjóri Arkansas

Atli Ísleifsson skrifar
Sarah Huckabee Sanders hætti sem fjölmiðlafulltrúi Bandaríkjaforseti árið 2019.
Sarah Huckabee Sanders hætti sem fjölmiðlafulltrúi Bandaríkjaforseti árið 2019. Getty/Steven Ferdman

Sarah Sanders, fyrrverandi fjölmiðlafulltrúi Donalds Trump, hyggst sækjast eftir því að taka við embætti ríkisstjóra Arkansas. Bæði AP og Reuters segja frá því að búist sé við tilkynningu þessa efnis frá Sanders síðar í dag.

Mike Huckabee, faðir Sanders, gegndi embætti ríkisstjóra Arkansas á árunum 1996 til 2007. Hann sóttist eftir að verða forsetaefni Repúblikana bæði 2008 og 2016.

Hin 38 ára Sanders var einn helsti talsmaður og ráðgjafi Trumps, þáverandi Bandaríkjaforseta, en hætti störfum í Hvíta húsinu árið 2019 og sneri þá aftur til heimaríkis síns, Arkansas. Hún var mikið gagnrýnd í tíð sinni sem talskona Trump fyrir að hafa ítrekað borið lygar forsetans á borð.

Repúblikanaflokkurinn hefur alla jafna verið sterkur í Arkansas og þannig naut Trump mikilla vinsælda í ríkinu.

Sanders mun í forvali Repúblikanaflokksins meðal annars kljást við Tim Griffin aðstoðarríkisstjóra (e. lieutenant-governor) og Leslie Rutledge, dómsmálaráðherra ríkisins, um útnefninguna.

Nýr ríkisstjóri mun taka við af Asa Hutchinson sem er óheimilt að bjóða sig fram að nýju á næsta ári, eftir að hafa gegnt í embættinu frá 2015.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.