Enski boltinn

Chelsea staðfestir brottreksturinn

Sindri Sverrisson skrifar
Frank Lampard er hættur sem þjálfari Chelsea.
Frank Lampard er hættur sem þjálfari Chelsea. Getty/Darren Walsh

Roman Abramovich, eigandi Chelsea, hefur ákveðið að reka knattspyrnustjórann Frank Lampard eftir slælegt gengi í ensku úrvalsdeildinni.

Þetta fullyrti The Telegraph nú í morgun og Chelsea hefur nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem þetta er staðfest.

„Þetta var mjög erfið ákvörðun fyrir félagið, ekki síst því persónulegt samband mitt við Frank er frábært og ég ber ómælda virðingu fyrir honum,“ sagði Abramovich í yfirlýsingu. Chelsea vinnur nú að ráðningu nýs knattspyrnustjóra.

Innan við sólarhringur er síðan að Lampard stýrði Chelsea til sigurs á Luton Town í 32 liða úrslitum ensku bikarkeppninnar en það virðist hafa verið síðasti leikur Chelsea undir hans stjórn.

Samkvæmt frétt The Telegraph fengu leikmenn Chelsea skilaboð um að mæta ekki á æfingasvæðið fyrr en síðdegis.

Lampard tók við Chelsea sumarið 2019 eftir góða frammistöðu sem þjálfari Derby. Chelsea var þá í kaupbanni hjá FIFA. Liðið endaði í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og komst í Meistaradeild Evrópu, þar sem liðið mætir Atlético Madrid í 16 liða úrslitum 23. febrúar og 17. mars. 

Liðinu hefur hins vegar gengið illa í úrvalsdeildinni í vetur og er aðeins í 9. sæti, með 29 stig eftir 19 leiki eða ellefu stigum á eftir toppliði Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×