Fótbolti

Celtic-hetjur minnast Jóhannesar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhannes Eðvaldsson var í miklum metum hjá stuðningsmönnum Celtic.
Jóhannes Eðvaldsson var í miklum metum hjá stuðningsmönnum Celtic. getty/Peter Robinson

Packie Bonner og Murdo Macleod eru meðal Celtic-hetja sem minnast Jóhannesar Eðvaldssonar sem lést í gær, sjötugur að aldri.

Jóhannes lék með Celtic á árunum 1975-80 og varð tvisvar sinnum skoskur meistari og einu sinni bikarmeistari með liðinu.

Jóhannes, sem gekk jafnan undir gælunafninu „Big Shuggy“, lék tæplega tvö hundruð leiki fyrir Celtic.

Bonner og Macleod léku báðir með Jóhannesi hjá Celtic og minntust hans á Twitter í gær.

„Ég er mjög leiður að heyra af fráfalli Jóhannesar Eðvaldssonar. Hann var mér mjög góður fyrsta árið mitt hjá Celtic. Hvíl í friði,“ skrifaði Bonner sem var lengi landsliðsmarkvörður Írlands.

Macleod deilir mynd af meistaraliði Celtic frá tímabilinu 1978-79. „Ég er mjög sorgmæddur að heyra af andláti Jóhannesar „Big Shuggie“ Eðvaldssonar. Hann var stór hluti af liðinu þegar við tryggðum okkur titilinn með því að vinna Rangers, 4-2, 1979. Hugur minn er hjá fjölskyldu hans,“ skrifar Macleod.

Auk Bonners og Mcleods minnast stuðningsmenn Celtic Jóhannesar en hann var í miklum metum hjá þeim.

Jóhannes sneri aftur til Skotlands 1982 og gekk í raðir Motherwell. Hann lék með liðinu í tvö ár. Jóhannes lék einnig sem atvinnumaður í Suður-Afríku, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Frakklandi og Danmörku.

Jóhannes lék 34 leiki fyrir íslenska landsliðið og skoraði tvö mörk. Annað þeirra kom með bakfallsspyrnu í frægum 2-1 sigri á Austur-Þýskalandi 1975.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×