Innlent

Éljagangur fyrir norðan og óvissa fyrir sunnan

Samúel Karl Ólason skrifar
Spálíkön Veðurstofunnar eru ósammála um það hvort von sé á snjókomu á suðvesturhluta landsins eða ekki.
Spálíkön Veðurstofunnar eru ósammála um það hvort von sé á snjókomu á suðvesturhluta landsins eða ekki. Vísir/Vilhelm

Áfram verður éljagangur um landið norðanvert, þó dragi úr vindi í dag, sem á að vera norðaustan 8 til 15 m/s. Bjart verður með köflum á sunnanverðu landinu og frost víða 0 til 6 stig, samkvæmt spá Veðurstofu Íslands.

Vegir eru víða ófærir á norðanverðu landinu og er víða blint ennþá. Vegagerðin gerir ráð fyrir að það muni taka töluverðan tíma að opna vegina í dag þegar dregur úr vindi.

Í spá Veðurstofunnar segir að áfram verði líkur á slæmum akstursskilyrðum á norðanverðu landinu. Á morgun verði áfram norðlæg átt, 5 til 13 m/s og áfram él norðan- og austanlands.

Talsverð óvissa sé í spánum fyrir suðvestanvert landið vegna lægðardrags sem myndist suðvestur af landinu í nótt. Líkön séu ósammála um hvort það nái inn á landi með tilheyrandi ofankomu eða hvort það haldi sig fjarri með þurru veðri.

Annað kvöld er svo búist við því að vind hvessi af austri vestantil á landinu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:

Norðlæg átt 5-13 m/s og él um landið norðan- og austanvert. Austlægari og líkur á snjókomu í suðvesturfjórðungi landins. Frost 1 til 10 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan. Vaxandi austlæg átt vestantil um kvöldið.

Á þriðjudag:

Austan og norðaustan 13-20, en hægari vindur um landið austanvert. Él í flestum landshlutum, og dregur úr frosti sunnanlands.

Á miðvikudag:

Hvöss austlæg átt og slydda eða snjókoma með köflum, en mun hægari vindur og þurrt um landið austanvert. Frost 0 til 7 stig, en frostlaust við suðurströndina.

Á fimmtudag:

Austan og suðaustanátt og skúrir eða él sunnan-og vestanlands, annars þurrt. Hiti 0 til 4 stig, en vægt frost fyrir norðan.

Á föstudag og laugardag:

Austlæg eða breytileg átt og skýjað með köflum, en dálítil él við suðurströndina. Frost 0 til 7 stig.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.