Innlent

Ekkert ferðaveður fyrir norðan

Samúel Karl Ólason og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Fjallvegum hefur verið lokað víða og Öxnadalsheiði var lokað í gærkvöldi.
Fjallvegum hefur verið lokað víða og Öxnadalsheiði var lokað í gærkvöldi. Vegagerðin

Akstursskilyrði á norðanverðu landinu eru víða slæm og ekki ferðaveður. Fjallvegir eru ófærir eða lokaðir víða á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi og var Öxnadalsheiðinni til að mynda lokað í gærkvöldi vegna snjóflóða.

Á norðanverðu landinu er víða stórhríð og alls ekkert ferðaveður, eins og það er orðað á vef Vegagerðarinnar. Víðast hvar á landinu er vetrarfærð en að mestu er greiðfært með Suðurströndinni.

Minnst þrjú snjóflóð féllu á Öxnadalsheiði í gærkvöldi og í nótt og lenti eitt þeirra á nokkrum bílum. Björgunarsveitarmenn þurftu að koma nokkrum ökumönnum til aðstoðar. Eftir að veginum var lokað var nóttin þó nokkuð róleg samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Norðurlandi Vestra.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að björgunarsveitir á norðurlandi hafi farið í minnst tólf útköll frá hádegi í gær til miðnættis. Mikið hafi verið um að ökumenn hafi fest bíla sína og keyrt út af.

Í tvígang þurfti að aðstoða sjúkrabíla yfir vegi vegna ófærðar.

Alls aðstoðuðu björgunarsveitarmenn fólk í 30 bílum og þar af voru fimmtán á Öxnadalsheiði.

Holtavörðuheiði hefur verið lokað vegna veðurs. Hjáleið er fær um Bröttubrekku og Laxárdalsheiði. Steingrímsfjarðarheiði er ófær og verður líklega ekki opnuð í dag. Súðavíkurhlíð er sömuleiðis lokuð og Flateyrarvegur.

Áfram er spáð sambærilegu veðri í dag. Snjókomu eða él um landið norðan- og austanvert og norðan- og norðaustan 13 til 20 metrum á sekúndu. Í nótt og i fyrramálið mun draga úr vindi.

Veginum upp á gönguskíðasvæðið á Seljalandsdal á Ísafirði var lokað í gærkvöldi vegna snjóflóðahættu og hafa snjóflóð fallið á veginn.

Vegurinn upp á Seljalandsdal lokaður. Í gærkveldi var veginum upp á gönguskíðasvæðið á Seljalandsdal lokað af...

Posted by Lögreglan á Vestfjörðum on Saturday, 23 January 2021


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.