Innlent

Rýming á­fram í gildi og sam­göngur tak­markaðar vegna snjó­flóða­hættu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Eins og sjá má var eyðileggingin í kjölfar flóðsins mikil.
Eins og sjá má var eyðileggingin í kjölfar flóðsins mikil. DJI Reykjavík/Sigurður Þór Helgason

Rýming verður áfram í gildi á Siglufirði í dag og verður hún endurmetin síðdegis á morgun. Þetta staðfestir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, í samtali við fréttastofu.

Tekin var ákvörðun um að rýma níu hús í kjölfar snjóflóðs sem féll á skíðasvæðinu á Siglufirði í gær og olli því meðal annars að skíðaskálinn á svæðinu færðist úr stað. Enn er talin hætta á snjóflóðum.

„Það féll flóð í Héðinsfirði í dag og fleira bendir til þess að snjóflóðahætta sé yfirvofandi enn þá,“ segir Víðir. Hann segir þó að engin flóð hafi fallið nálægt byggð, svo vitað sé. Athuganir á því standa yfir.

Víðir segir þá að fólki sem hefur þurft að yfirgefa heimili sín muni gefast kostur á að fara og sækja helstu nauðsynjar. Það fái þó ekki að dveljast heima í nótt.

„Veðurspáin er reyndar ágæt næstu tíu, tólf klukkutímana. Það er reiknað með að íbúar fái að fara heim til þess að sækja nauðsynjar en fá ekki að dvelja þar í nótt.“

Víðir ítrekar að snjóflóðahætta sé á vegum nálægt Siglufirði og því sé umferð þar um takmörkuð.

„Veginum um Ólafsfjarðarmúla verður lokað klukkan átta í kvöld og það verður truflun á samgöngum meðan þetta ástand varir, má búast við,“ segir Víðir og vill brýna fyrir fólki að vera ekki á ferðinni að óþörfu. Snjóflóðahætta sé viðvarandi bæði á Siglufjarðarvegi og veginum um Ólafsfjarðarmúla.

Uppfært klukkan 17:59: Samkvæmt tilkynningu frá Almannavörnum og lögreglunni á Norðurlandi eystra verður varðskipið Týr úti fyrir Eyjafirði, til taks meðan hættuástand varir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×