Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var spurður út í bóluefnismál á upplýsingafundi almannavarna vegna kórónuveirunnar í dag. Ísland hefur tryggt sér bóluefnisskammta fyrir yfir hálfa milljón manns frá nokkrum framleiðendum. Íslendingar eru þó ekki nema rúmlega 300 þúsund talsins.
„Hugsunin á bak við það aðallega sú að ef eitthvað skyldi koma upp hjá einhverjum framleiðanda værum við samt sem áður með tryggt magn af bóluefni,“ sagði Þórólfur um þessi umframkaup á bóluefnisskömmtum.
Inntur eftir því hvort þeir sem fengið hafa bólusetningu gætu þurft bólusetningu aftur sagði Þórólfur það mögulegt.
„Það er alls ekkert útilokað, það getur vel verið, og það er ein af þessum rannsóknarspurningum sem þarf að svara; hvað endist ónæmið lengi? Venjulega þarf ekki að gefa fljótt annan skammt en það verður eiginlega bara að koma í ljós hvort það þarf og þess vegna er nauðsynlegt að fylgjast með því mjög náið,“ sagði Þórólfur.
Fleiri spurningum um ónæmi og virkni bóluefnanna væri jafnframt ósvarað, til að mynda hvort bóluefnin virki gegn öllum stofnum veirunnar. Þórólfur benti þó á að ekkert væri enn komið fram sem benti til þess að bóluefni virkuðu ekki gegn stofnum sem kenndir hafa verið við Bretland og Suður-Afríku.
„Það er líka spurning hvort munu koma upp stofnar af veirunni sem sleppa undan bólusetningunni, og er það eitthvað mismunandi milli bóluefna? Við vitum þetta ekki enn þá. Til dæmis þessi breski stofn og suðurafríski, það eru ekki enn þá komnar neinar vísbendingar um að þessir stofnar sleppi undan bóluefninu. En það gæti verið og við þurfum alveg að vera undir það búin.“