Innlent

Rafræn bólusetningarvottorð aðgengileg á morgun

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Bólusetning gegn covid-19 hófst hér á landi milli jóla og nýárs.
Bólusetning gegn covid-19 hófst hér á landi milli jóla og nýárs. Vísir/Vilhelm

Þeir fyrstu sem fengu bólusetningu við covid-19 hér á landi fá sína seinni sprautu í dag og á morgun. Embætti landlæknis leggur nú lokahönd á rafræna lausn sem á að gera fólki kleift að nálgast bólusetningarvottorð í gegnum netið á heimasíðunni heilsuvera.is.

Stefnt er að því að þeir sem hafa verið fullbólusettir gegn veirunni geti nálgast bólusetningarvottorðið frá og með deginum á morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. Þar segir að vottorðið verði að efni og útliti í samræmi við evrópska staðla og alþjóðlega bólusetningarskírteinið.

„Markmiðið er að greiða för fólks milli landa, þannig að einstaklingar geti framvísað bóluefnavottorði á landamærum og séu þá undanþegnir sóttvarnaráðstöfunum vegna COVID-19 í samræmi við reglur hlutaðeigandi lands,“ segir í tilkynningunni.

Greint var frá því í síðustu viku að heilbrigðisráðherra hafi ákveðið að bólusetningarvottorð sem uppfylla leiðbeiningar sóttvarnalæknis og eru gefin út í EES og EFTA-ríkjum verði tekin gild á landamærum Íslands. Þannig séu þeir sem framvísi slíku vottorði undanþegnir opinberum sóttvarnaráðstöfunum á landamærum og verður þannig ekki skylt að fara í sýnatöku á landamærum.

Áfram verður hægt að sækja fá hefðbundið bólusetningarvottorð hjá heilsugæslunni, hafi fólk ekki tök á að nýta sér rafrænt vottorð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.