Erlent

Fimmtíu handteknir og hald lagt á rúmlega 300 milljónir evra

Samúel Karl Ólason skrifar
Saksóknarinnar Nicola Gratteri ræðir við blaðamenn. Hann segir 'Ndrangheta-mafíuna leitast eftir pólitískum áhrifum.
Saksóknarinnar Nicola Gratteri ræðir við blaðamenn. Hann segir 'Ndrangheta-mafíuna leitast eftir pólitískum áhrifum. AP/Valeria Ferraro

Fimmtíu hafa verið handteknir og rannsókn hafin á stjórnmálamanni í áhlaupi lögreglunnar á Ítalíu gegn ‘Ndrangheta-mafíunni. Saksóknarar segja áhlaupið varpa ljósi á viðleitni mafíunnar til að þvætta fé og kaupa pólitísk áhrif.

‘Ndrangheta-mafían á höfuðstöðvar í Calabria-héraði, sem er táin á stígvéli Ítalíu, og hefur tekið fram úr Cosa Nostra varðandi völd. Mafían er talin meðal stærstu glæpasamtaka í heimi.

Reuters hefur eftir saksóknaranum Nicola Gratteri, sem hófst ein stærstu mafíuréttarhöld Ítalíu í síðustu viku, að núverandi rannsókn lögreglunnar staðfesti það sem saksóknarar hafa sagt í áratugi.

„‘Ndrangheta-mafían skýtur minna en hefur meiri tengsl við viðskiptalífið og stjórnmálin.“

Rannsókn lögreglunnar beinist meðal annars að Lorenzo Cesa, formanns UDC flokksins. Sá naut mikillar athygli á landsvísu í síðustu viku þegar hann neitað að koma ríkisstjórn Giuseppe Conte til aðstoðar og ganga til liðs við ríkisstjórnina sem hefur tapað meirihluta sínum.

Hann situr einnig á Evrópuþinginu og var gerð húsleit á heimili hans samkvæmt ANSA fréttaveitunni.

Gratteri sagði Cesa grunaðan um að útvega ‘Ndrangheta-mafíunni opinbera samninga í stað greiða.

Cesa neitar sök en segist ætla að láta af formennsku UDC.

Fundu mikið reiðufé

Minnst einn annar meðlimur flokksins, sem starfar sem embættismaður í Calabria var handtekinn. Þá lagði lögreglan hald á minnst 300 milljónir evra við rannsókn sína, samkvæmt ANSA. Í krónum talið eru það rúmlega 47 milljarðar, gróflega reiknað.

Reuters segir að rannsóknin hafi að mestu leiti snúist um peningaþvætti og að lögreglan hafi hlerað rúmlega 250 þúsund símtöl. Lögreglan segir mafíuna hafa notað fjölmörg félög til að þvætta fé og svíkja fé úr skattinum.

Fölsk starfsemi þessara félaga hafi gengið svo langt að vöruskemmur hafi verið leigðar en tómar og að bílstjórar flutningabíla hafi verið sendir til að þykjast skila af sér og taka við vörum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.