Innlent

Háskóli Íslands er ekki tryggður fyrir tjóninu

Kristín Ólafsdóttir og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, á vettvangi vatnslekans á háskólasvæðinu í morgun.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, á vettvangi vatnslekans á háskólasvæðinu í morgun. Vísir/Egill

Háskóli Íslands er ekki tryggður fyrir tjóninu sem varð vegna gríðarlegs vatnsleka í fimm byggingum skólans í nótt, að sögn rektors. Hann segir ljóst að tjónið sé gríðarlegt og hafi einmitt orðið í þeim skólastofum sem eru í notkun í kórónuveirufaraldrinum.

„Þetta lítur ekki vel út. Það er þannig að við erum með mjög stóra fyrirlestrasali og kennslustofur á Háskólatorgi og mjög mikla starfsemi í Gimli og af þessum fimm byggingum sem urðu fyrir tjóni, það er mest þar,“ segir Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands í samtali við fréttastofu í dag.

Einmitt stofurnar sem eru í notkun

Kennsla á háskólasvæðinu er í lágmarki þessa dagana vegna kórónuveirufaraldursins. Jón Atli segir að þrátt fyrir það sé vatnslekinn afar slæmur fyrir starfsemi skólans.

„En þetta hefur samt veruleg áhrif og síðan er skrifstofuhúsnæði í Gimli. Gimli er rafmagnslaust sem stendur, það hefur orðið gríðarlegt tjón þar og þar eru líka kennslustofur. Svo þetta er mjög alvarlegt,“ segir Jón Atli.

„Þetta eru einmitt stofurnar sem við höfum verið að nota. Þar er hægt að hafa allt að fimmtíu með tveggja metra fjarlægð svo það skiptir máli að þessar tilteknu stofur eru ekki í lagi. En við getum leitað annarra lausna varðandi þetta rými og það er eitt af því sem við þurfum að gera. Skoða hvaða rými við getum notað undir þá starfsemi sem við getur ekki verið hér í Gimli og Háskólatorgi.“

Slökkviliðsmenn dæla vatni í kennslustofu á Háskólatorgi í morgun.Vísir/Egill

Ljóst þykir að tjónið gæti hlaupið á hundruð milljónum króna en Jón Atli kveðst þó ekki geta sagt til um það. Hann telur að liðið gætu mánuðir þar til eðlileg starfsemi hefst í byggingunum sem urðu hvað verst úti.

„En við sjáum að gólfefni og húsgögn og veggir eru illa farnir, hurðir og þess háttar, svo það þarf að taka þetta allt í gegn. Þannig að tveir, þrír mánuðir eru eitthvert mat sem ég hef varðandi þetta. Og þá erum við komin inn í vorið.“

Strax fengið góð viðbrögð frá ráðuneytinu

Aðspurður segir Jón Atli að Háskóli Íslands sé ekki tryggður.

„Við erum ríkisstofnun og ríkið tryggir ekki. En við munum tala við okkar ráðuneyti og höfum strax fengið góð viðbrögð þar varðandi þetta mál, og síðan við aðra aðila sem koma að þessu. En ég get að öðru leyti ekki tjáð mig um það.“

Nú á ellefta tímanum var búið að dæla mesta vatninu út úr skólanum. Jón Atli hrósar viðbragðsaðilum sem komið hafa að hreinsunarstarfinu í morgun. Aðkoma þeirra sem mættu fyrstir á vettvang í nótt hafi verið afar slæm.

„Þeir lýstu þessu þannig að þetta hefði bara verið hrikalegt, sérstaklega á þeim stöðum sem voru næst upprunanum. Og bara mjög alvarlegt, sérstaklega í Gimli hefði ástandið verið mjög slæmt. En ég vil líka hrósa þeim sem hafa tekið þátt í þessu björgunarstarfi, bæði starfsfólki skólans, slökkviliði og öðrum.“


Tengdar fréttir

Hurðir sprungu undan gríðar­legum vatns­flaumnum

Gríðarlegt tjón varð á byggingum Háskóla Íslands í miklum vatnsleka á svæðinu í nótt, að sögn sviðsstjóra framkvæmda- og tæknisviðs skólans. Tvær byggingar; Gimli og Háskólatorg, fóru verst úti. Hurðir sprungu undan vatninu og í Gimli náði flaumurinn upp í rafmagnstöflur.

Hand­ritin í Árna­garði ó­hult

„Það fór ekkert inn til okkar og handritin eru óhult.“ Þetta segir Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, í samtali við Vísi, aðspurð um hvort að vatnslekinn í byggingum Háskóla Íslands hafi náð inn í handritageymslur stofnunarinnar.

Engin starfsemi í mörgum byggingum Háskóla Íslands

Öll starfsemi Háskóla Íslands á Háskólatorgi, í Gimli, Lögbergi, Árnagarði og aðalbyggingu mun liggja niðri að minnsta kosti til hádegis í dag vegna gríðarlegs vatnstjóns sem orðið hefur í byggingum skólans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×