Innlent

Engin starfsemi í mörgum byggingum Háskóla Íslands

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vinna hefur staðið yfir á vettvangi frá því klukkan eitt í nótt.
Vinna hefur staðið yfir á vettvangi frá því klukkan eitt í nótt. Vísir/Arnar

Öll starfsemi Háskóla Íslands á Háskólatorgi, í Gimli, Lögbergi, Árnagarði og aðalbyggingu mun liggja niðri að minnsta kosti til hádegis í dag vegna gríðarlegs vatnstjóns sem orðið hefur í byggingum skólans.

Þetta á við um alla starfsemi, þar með talið kennslu, rannsóknir og þjónustu að því er segir í tilkynningu frá háskólanum.

„Nánari upplýsingar verða veittar um leið og fram vindur en verið er að dæla vatni úr húsnæði skólans. Fram hefur komið í fréttum að rof hafi komið á stóra kaldavatnsæð í Vesturbæ Reykjavíkur í nótt. Ljóst er að mikið verk er framundan við að koma aðstöðunni í samt horf,“ segir í tilkynningu skólans.

Það var rétt fyrir klukkan eitt í nótt sem stór kaldavatnsleki kom upp í lokahúsi vatnsveitu Reykjavíkurborgar sunnan við aðalbyggingu HÍ og lak í kjölfarið mikið vatn inn í byggingar skólans.

Í tilkynningu frá Veitum kemur fram að lekinn hafi uppgötvast í stjórnstöð vatns hjá Veitum þegar vart varð mikils þrýstingsfalls í dreifikerfi kalda vatnsins vestan Snorrabrautar.

„Lekinn var um 500l/s og stóð í 75 mínútur áður en náðist að loka fyrir, það runnu því út um 2250 tonn af vatni. Framkvæmdir hafa verið í gangi við endurnýjun vatnslagna á Suðurgötu og er lekinn talinn tengdur þeim,“ segir í tilkynningu Veitna.

Slökkviliðið hefur verið við vinnu á vettvangi frá því útkallið barst klukkan eitt í nótt. Áætlað er að vinnu verði framhaldið að minnsta kosti fram að hádegi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.