Erlent

Skáldið sem sló í gegn

Samúel Karl Ólason skrifar
Amanda Gorman á innsetningarathöfninni í gær.
Amanda Gorman á innsetningarathöfninni í gær. AP/Patrick Semansky

Skáldið unga, Amanda Gorman, baslaði við að klára ljóðið „The Hill We Climb“, eða Hæðin sem við klífum, fyrir um tveimur vikum síðan. Hún hafði nýverið fengið tímamótaverkefni og óttaðist að valda því ekki. Sá ótti hennar reyndist ekki á rökum reistur.

Gorman var alin upp í Los Angeles og fékk hún fljótt mikinn áhuga á ljóðum.

Hún er 22 ára gömul, varð í gær yngsta manneskjan til að lesa ljóð á innsetningarathöfn forseta Bandaríkjanna og hefur ljóð hennar og frammistaða vakið gífurlega lukku.

Meðal annarra ljóðskálda sem hafa tekið þátt í eru Robert Frost og Maya Angelou.

Hlusta má á flutning Gorman hér að neðan.

Gorman fékk boð um að flytja ljóð á athöfninni í síðasta mánuði og komst að því að Jill Biden, forsetafrú, hefði heyrt hana flytja ljóð í fyrra og stungið upp á því að hún tæki þátt í athöfninni.

Í samtali við New York Times segir Gorman að verkefninu hafi ekki fylgt skilyrði. Hún hefði fengið að skrifa það sem hún vildi.

Hún segist hafi samið ljóðið yfir margra daga tímabil og bætt línum við hér og þar. Eftir þann 6. janúar, þegar stuðningsmenn Donalds Trumps, fyrrverandi forseta, ruddu sér leið inn í þinghús Bandaríkjanna með því markmiði að stöðva formlega staðfestingu niðurstöðu forsetakosninganna í nóvember, vakti hún langt fram á nótt og kláraði ljóðið.

Þá bætti hún sérstaklega við kafla um „öfl sem vilji sundra þjóðinni frekar en að deila henni“.

Hún segist ekki hafa viljað hunsa það sem Bandaríkjamenn hafi upplifað á undanförnum vikum og jafnvel árum en hafi viljað nota orð sín til að ímynda sér leið til að koma þjóðinni saman.

Eins og áður segir vakti Gorman mikla athygli. Fylgjendum hennar á Instagram hefur til að mynda fjölgað úr nokkrum tugum þúsunda í rúmar tvær milljónir. Þá bárust henni kveðjur og hrós úr ýmsum áttum.

Meðal ananrs bárust þær frá Barack Obama, fyrrverandi forseta, Opruh Winfrey og Lin Manuel Miranda.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.