Stefnt er að því að þeir sem hafa verið fullbólusettir gegn veirunni geti nálgast bólusetningarvottorðið frá og með deginum á morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. Þar segir að vottorðið verði að efni og útliti í samræmi við evrópska staðla og alþjóðlega bólusetningarskírteinið.
„Markmiðið er að greiða för fólks milli landa, þannig að einstaklingar geti framvísað bóluefnavottorði á landamærum og séu þá undanþegnir sóttvarnaráðstöfunum vegna COVID-19 í samræmi við reglur hlutaðeigandi lands,“ segir í tilkynningunni.
Greint var frá því í síðustu viku að heilbrigðisráðherra hafi ákveðið að bólusetningarvottorð sem uppfylla leiðbeiningar sóttvarnalæknis og eru gefin út í EES og EFTA-ríkjum verði tekin gild á landamærum Íslands. Þannig séu þeir sem framvísi slíku vottorði undanþegnir opinberum sóttvarnaráðstöfunum á landamærum og verður þannig ekki skylt að fara í sýnatöku á landamærum.
Áfram verður hægt að sækja fá hefðbundið bólusetningarvottorð hjá heilsugæslunni, hafi fólk ekki tök á að nýta sér rafrænt vottorð.