Fótbolti

Al-Arabi hélt út manni færri í næstum klukku­stund

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn í markalausu jafntefli Al-Arabi í dag.
Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn í markalausu jafntefli Al-Arabi í dag. Simon Holmes/Getty Images

Sigurhrinu Al-Arabi lauk í dag er liðið gerði markalaust jafntefli við Umm-Salal í úrvalsdeildinni í Katar. Var þetta annað jafntefli lærisveina Heimis Hallgrímssonar í röð.

Ibraham Kala fékk rautt spjald í liði Al-Arabi á 37. mínútu leiksins. Eftir það lögðust gestirnir til baka og héldu fengnum hlut. Það gekk eftir og lauk leiknum með markalausu jafntefli. Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn á miðju Al-Arabi.

Eftir erfiða byrjun á tímabilinu er Al-Arabi á góðu skriði og hefur nú leikið sex leiki í röð án ósigurs. Eftir fjóra sigra í röð gerði liðið jafntefli í síðasta leik þar sem Heimir var vægast sagt ósáttur með mótherja sem og dómara leiksins.

Liðið er nú með 20 stig, aðeins fimm stigum á eftir Al-Rayyan sem er í 3. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×