Fótbolti

Neville orðinn þjálfari liðs Beckhams

Sindri Sverrisson skrifar
Phil Neville stýrði enska kvennalandsliðinu en fórnaði Ólympíuleikunum til að taka við Inter Miami.
Phil Neville stýrði enska kvennalandsliðinu en fórnaði Ólympíuleikunum til að taka við Inter Miami. Getty/Simon Stacpoole

Bandaríska knattspyrnufélagið Inter Miami, sem er að hluta í eigu Davids Beckham, hefur ráðið einn af félögum eigandans úr sigursælu liði Manchester United, Phil Neville, sem þjálfara.

Neville kemur í stað Diego Alonso sem var látinn fara fyrr í þessum mánuði. Inter Miami endaði í 10. sæti af 14 liðum í austurdeild MLS-deildarinnar, á sinni fyrstu leiktíð.

Neville tekur við Inter Miami eftir að hafa stýrt enska kvennalandsliðinu frá árinu 2018 en það var fyrsta aðalþjálfarastarf hans. Hann fékk sig lausan til að taka við Inter Miami og mun því ekki stýra Englandi á Ólympíuleikunum í Tókýó. Ekki er ljóst hver stýrir Englandi á leikunum en Sarina Wiegman hættir með hollenska landsliðið og tekur við því enska að Ólympíuleikunum loknum.

Neville og Beckham voru hluti af gullkynslóð Manchester United en Neville lék yfir 300 leiki fyrir United og varð meðal annars sex sinnum Englandsmeistari og einu sinni Evrópumeistari. Neville lék einnig yfir 300 leiki fyrir Everton, þar sem hann var gerður að fyrirliða, og 59 leiki fyrir enska landsliðið.

Neville og Beckham léku 273 leiki saman og unnu 173 þeirra, samkvæmt heimasíðu Inter Miami.

MLSFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.