Fótbolti

Sjáðu mörkin úr nær fullkomnum leik Inter

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nicolo Barella og Romelu Lukaku eftir að sá fyrrnefndi kom Inter í 2-0 gegn Juventus.
Nicolo Barella og Romelu Lukaku eftir að sá fyrrnefndi kom Inter í 2-0 gegn Juventus. getty/Mattia Ozbot

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Inter, sagði að sínir menn hefðu nánast leikið hinn fullkomna leik þegar þeir sigruðu Juventus, 2-0, í ítölsku úrvalsdeildinni í gær.

Þetta var fyrsti sigur Inter í Derby d'Italia, eins og leikirnir gegn Juventus kallast, síðan 2016. Þetta var jafnframt í fyrsta sinn sem Conte tekst að vinna Juventus á stjóraferlinum.

„Að sjálfsögðu var þetta mikilvægur sigur. Það er mikil prófraun að mæta Juventus. Við lékum mjög vel og þegar þú vinnur Juventus hefurðu venjulega spilað nánast hinn fullkomna leik. Ég er mjög ánægður því strákarnir lásu leikinn vel, eins og við höfðum undirbúið okkur fyrir hann,“ sagði Conte eftir leikinn á San Siro í gær.

Klippa: Viðtal við Conte

Cristiano Ronaldo kom Juventus yfir á 11. mínútu en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Mínútu síðar náði Inter forystunni. Arturo Vidal skallaði þá boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Nicolo Barella. Vidal lék með Juventus á árunum 2011-15 og varð fjórum sinnum ítalskur meistari með liðinu.

Inter var mun sterkari aðilinn það sem eftir var fyrri hálfleiks en tókst ekki að bæta við forskotið.

Það tókst hins vegar á 52. mínútu þegar Alessandro Bastoni átti frábæra sendingu inn fyrir vörn Juventus á Barella sem skoraði með góðu skoti upp í þaknetið.

Meistarar Juventus voru ekki líklegir til að jafna metin og fengu í raun bara eitt gott færi það sem eftir lifði leiks. Það féll í skaut Federicos Chiesa en Samir Handanovic varði skot hans frábærlega.

Lokatölur 2-0 sigur Inter. Allt það helsta úr leiknum má sjá í myndbandinu hér fyrir neðan.

Klippa: Inter 2-0 Juventus

Með sigrinum jafnaði Inter granna sína í AC Milan að stigum á toppi ítölsku úrvalsdeildarinnar. Milan getur endurheimt þriggja stiga forskot á toppnum með sigri á Cagliari á útivelli í kvöld. Leikur liðanna hefst klukkan 19:30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

Juventus er í 5. sæti deildarinnar með 33 stig, sjö stigum á eftir Mílanó-liðunum.


Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.