Einstaklingar í elstu aldurshópum landsins fá skammtana og sömuleiðis þá skammta sem berast næstu vikurnar.
Það var þann 29. desember sem fyrstu Íslendingarnir fengu fyrir sprautu sína í bólusetningu vegna Covid-19. Síðan eru liðnar þrjár vikur og komið að síðari sprautunni. Um var að ræða fólk í fyrstu forgangshópum sem er framlínustarfsfólk og einstaklingar á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Á myndinni að neðan má sjá forgangsröðunina.

Fólk sem er sjötíu ára og eldra fær þær bólusetningar sem fram undan eru næstu vikurnar. Samkvæmt dreifingaráætlun lyfjafyrirtækja er von á bóluefni fyrir um þrjátíu þúsund manns á fyrsta ársfjórðungi og því er ekki talið líklegt að aðrir verði bólusettir fyrr en eftir mars.
Næsti hópur á eftir einstaklingum sjötíu ára og eldri verða einstaklingar sextíu ára og eldri með undirliggjandi sjúkdóma. Í framhaldinu verður farið áfram niður forgangslistann. Þórólfur Guðnason tjáði fréttastofu þann 6. janúar að yngra fólk í áhættuhópum yrði varla bólusett fyrr en eftir mars.
Samkvæmt dreifingaráætlun Pfizer var von á 3000 skömmtum til Íslands á viku næstu vikurnar.
Fram kom á föstudaginn á vef Lýðheilsustofnunar Noregs að von væri á færri skömmtum af bóluefni lyfjaframleiðandans Pfizer til Evrópu frá og með þessari viku en áætlað var. Um tímabundna breytingu á afhendingaráætlun væri að ræða. Þar sagði einnig að breytingin hafi áhrif á öll lönd í Evrópu.
Þórólfur ræddi þessi mál í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
„Það er ekki ljóst hvaða áhrif þetta hefur hér, við vitum að við fáum umræddan skammt í næstu viku eins og talað var um en eftir það er ekki alveg ljóst þannig að við eigum eftir að fá betri fregnir af því en þetta helgast af því að þeir eru að breyta ferlunum en síðan ætla þeir að vinna það upp aftur. Jafnvel í mars munu þeir geta bætt fyrir þetta tapaða magn sem þeir áætla fram að því.“
Hvað býstu við mörgum skömmtum frá Pfizer fram til mars?
„Út mars erum við að tala um að í heildina verðum við búin að fá um 50 þúsund skammta, við erum búin að fá 10 þúsund skammta nú þegar þannig að ég býst við því og vona að það standist.“
1200 skammtar af bóluefni frá Moderna kom til landsins í síðustu viku en ekkert liggur fyrir um frekara bóluefni þaðan að svo stöddu. Von er á niðurstöðu sérfræðingahóps Lyfjastofnunar Evrópu varðandi bóluefni AstraZeneca þann 29. janúar að sögn Þórólfs.