Innlent

„Við getum ekki farið að slaka á meira núna“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, óttast það helst að fólk fari nú að sleppa fram af sér beislinu og að það komi bakslag í faraldurinn.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, óttast það helst að fólk fari nú að sleppa fram af sér beislinu og að það komi bakslag í faraldurinn. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir ekki tímabært að fara að ræða tilslakanir á núverandi samkomutakmörkunum þrátt fyrir að reglur á landamærum hafi verið hertar og fáir hafi greinst með kórónuveiruna innanlands undanfarna daga.

Núverandi reglugerð gildir til 17. febrúar og vonar Þórólfur að ekki þurfi að herða neitt á aðgerðum fyrir þann tíma.

„Við getum ekki farið að slaka á meira núna. Nú þurfum við aðeins að halda út, við þurfum að halda áfram að bólusetja, við erum byrjaðir og erum að halda áfram núna í vikunni,“ sagði Þórólfur í Bítinu í morgun.

Tæplega 5000 manns, framlínustarfsmenn í heilbrigðiskerfinu og íbúar á hjúkrunarheimilum, fá seinni bólusetningu í þessari viku. Þá kemur ný sending af bóluefni Pfizer í vikunni og þá verður byrjað að bólusetja aðra eldri borgara.

Þórólfur vildi ekki tjá sig um það hvað við þyrftum að halda núverandi reglur lengi út heldur vísaði í gildistíma reglugerðarinnar.

„Vonandi helst það. Það sem að ég er kannski hræddastur við er að menn fari að sleppa fram af sér beislinu, við förum að fá bakslag og þurfum að fara að herða. Það er það skelfilegasta sem gæti gerst. Þess vegna erum við alltaf að brýna fólk að passa sig áfram jafnvel þótt staðan sé svona góð. Við erum ennþá með smit úti í samfélaginu og veiran er bara að lúra og bíða eftir rétta tækifærinu til að geta sprottið fram. Hún hefur ekki gert það ennþá og vonandi gerir hún það ekki en það er það sem við erum hræddari við þangað til við fáum útbreiddari bólusetningu,“ sagði Þórólfur.

Hlusta má á viðtalið við hann í spilaranum ofar í fréttinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×