Innlent

Alþingi kemur saman á ný eftir jólafrí

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin er tekin við setningu Alþingis í haust.
Myndin er tekin við setningu Alþingis í haust. Vísir/Vilhelm

Alþingi kemur saman til funda á ný í dag eftir jólafrí. Þingfundur hefst klukkan 15. Á dagskránni eru óundirbúnar fyrirspurnir, beiðni frá Söru Elísu Þórðardóttur, þingmanni Pírata, um skýrslu frá ríkisendurskoðanda um starfsemi Vegagerðarinnar og þá flytur Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, munnlega skýrslu um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Stjórnmálaflokkarnir eru að koma sér í startholurnar fyrir þingkosningar sem verða í september og er ekki ólíklegt að kosningarnar liti eitthvað þingstörfin næstu mánuði. Þá er kórónuveirufaraldurinn enn stórt verkefni stjórnmálanna og mun því án efa einnig setja mark sitt á þingið.

Þá hyggst Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, leggja fram frumvarp sitt um tillögur til breytinga á stjórnarskránni en hún flytur frumvarpið ein. Í samtali við Morgunblaðið í dag segir Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, brýnt að frumvarpið verði að lögum á vorþinginu.

„Að undanförnu hefur farið mikil vinna í málið og ég vona að okkur auðnist að ná samstöðu um nauðsynlegar breytingar,“ segir Kolbeinn.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir í samtali við Morgunblaðið að fyrirhuguð sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka verði deilumál. Vilji ríkisstjórnin verja almannahag betur í því ferli þurfi að vinna heimavinnuna betur áður en farið er af stað.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.