Innlent

Koma heim úr jarðar­förum, brúð­kaupum eða af­mælum og reynast smituð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Keflavíkurflugvelli. 
Frá Keflavíkurflugvelli.  Vísir/vilhelm

Flestir sem hafa greinst með kórónuveiruna á landamærum undanfarið koma frá löndum á borð við Danmörku og Pólland, sem hafa hvað mesta tengingu við Ísland. Dæmi eru um að stórir hópar komi heim úr jarðarförum eða brúðkaupum og reynist jákvæðir í skimun á Keflavíkurflugvelli.

Einn greindist með veiruna innanlands í dag og var sá í sóttkví. Enn er sami stofn veirunnar ráðandi innanlands og í haust. 36 hafa nú greinst með hið svokallaða breska afbrigði á landamærum, þar af sjö innanlands, samkvæmt upplýsingum frá Íslenskri erfðagreiningu.

Fjórtán greindust með veiruna á landamærunum í gær, flestir úr sömu flugvélinni. Fimm flugvélar komu til landsins þann dag; tvær frá Póllandi og hinar frá Amsterdam, Kaupmannahöfn og Riga. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að undanfarið hafi farþegar frá öllum löndum greinst jákvæðir en flestir frá Danmörku og Póllandi.

„Þetta endurspeglar þetta ástand sem er í löndunum þar sem við erum að horfa á flesta sem koma til Íslands; frá Englandi, Danmörku, Póllandi, Eistlandi. Þetta eru löndin þar sem mestu samskiptin eru hingað,“ segir Víðir.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn.Vísir/vilhelm

„Það er nánast ekkert land undanskilið. Við erum að fá jákvæða einstaklinga á landamærum, frá eiginlega öllum löndum sem flogið er frá. En núna síðustu vikur hefur mesta umferðin verið kannski Danmörk og síðan Pólland. Flestir að koma þaðan. Og það endurspeglast auðvitað í þeim fjölda sem er að greinast.“

Þá hefur borið á því að stórir hópar sem ferðist saman reynist smitaðir.

„Já, við höfum séð það bæði í haust og núna nýlega að hópar sem eru með tengingar eru að koma heim úr jarðarförum, afmælum jafnvel og brúðkaupum, þar sem ansi margir sem hafa haft tengingu erlendis eru að koma heim. Og er síðan stór hópur jákvæður í sýnatöku á landamærum,“ segir Víðir.

„Það er bara mjög mikilvægt að menn haldi ferðalögum í algjöru lágmarki næstu vikurnar meðan við erum að fara í gegnum þetta ástand og fólk sé ekki að fara erlendis nema brýna nauðsyn beri til.“


Tengdar fréttir

Nær allir sem greindust komu með sömu flugvélinni

Fjórtán greindust með kórónuveiruna á landamærunum í gær, nær allir úr sömu flugvélinni. Yfirlögregluþjónn telur stöðuna á faraldrinum hér á landi almennt góða; Ísland sé í einstakri stöðu, jafnvel á heimsvísu, en enn þurfi að hafa allan varann á.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×