Innlent

Nær allir sem greindust komu með sömu flugvélinni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. Vísir/vilhelm

Fjórtán greindust með kórónuveiruna á landamærunum í gær, nær allir úr sömu flugvélinni. Yfirlögregluþjónn telur stöðuna á faraldrinum hér á landi almennt góða; Ísland sé í einstakri stöðu, jafnvel á heimsvísu, en enn þurfi að hafa allan varann á.

Fimm flugvélar lentu á Keflavíkurflugvelli í gær, tvær frá Póllandi gærnótt og um morguninn, og svo þrjár síðdegis; frá Amsterdam, Kaupmannahöfn og Riga. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum segir það enn helsta áhyggjuefni sóttvarnayfirvalda hversu margir greinist á landamærunum.

„Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk voru næstum allir þessir aðilar í sömu flugvél þannig að þetta er auðvitað það sem við höfum verið að berjast fyrir í langan tíma að ná betur utan um og nú er það að ganga og allir fara í sýnatöku,“ segir Víðir.

Hann hefur ekki upplýsingar um það hvaðan fólkið sem greindist með veiruna var að koma eða hvort það hafi verið saman á ferðalagi.

Allir fóru í skimun á endanum

Skimunarskylda fyrir alla komufarþega kom til framkvæmda á landamærum í gær. Víðir segir að það hafi gengið vel að mestu þó einhverjir hafi hreyft við mótbárum.

„Það voru auðvitað einhverjir sem vilja helst ekki fara í sýnatöku en í gær fóru allir í gegn og það gekk á endanum. Það eru auðvitað einhverjir sem höfðu ekki kynnt sér breytingarnar á reglunum. Þrátt fyrir að þetta komi skýrt fram í forskráningarblöðunum voru einhverjir sem héldu að þeir gætu valið þetta enn þá, það eru aðilar sem eru að koma og fara til landsins og eru búnir að vera reglulega á ferðinni í haust,“ segir Víðir.

„Menn héldu að þeir gætu valið fjórtán daga sóttkví en þegar var búið að fara vel yfir málið með öllum endaði það með góðu að allir fóru í skimun.“

Víðir telur stöðuna á faraldrinum hér á landi þó almennt góða. Ísland sé í einstakri stöðu, jafnvel á heimsvísu, en enn þurfi að hafa allan varann á.

„Í sjálfu sér erum við alltaf með þessar vangaveltur þegar þessar tilslakanir verða, við höfum reynsluna af því núna síðan í sumar að það hefur oftar en ekki komið bakslag með tilslökunum. Við erum að vonast til þess að við höfum hitt betur á það núna en við gerðum í haust, þannig að við lendum ekki í því að fá eitthvað bakslag í þetta.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.