Fyrirtækið sagði í tilkynningu að í kjölfar atburðanna þann 6. janúar, þegar stuðningsmenn Donalds Trump Bandaríkjaforseta réðust inn í þinghúsið í Washington DC, hafi það ákveðið að banna auglýsingar um sölu vopnaaukahluta í Bandaríkjunum. Það á meðal annars við byssuskápa, skotheld vesti og skotvopnaslíður.
„Við bönnum nú þegar auglýsingar á vopnum, skotfærum og aukahlutum sem uppfæra vopn eins og til dæmis hljóðdeyfa. Nú munum við einnig banna auglýsingar á aukahlutum,“ sagði Facebook í tilkynningu.
Þrír öldungadeildarþingmenn sendu Mark Zuckerberg, forstjóra Facebook, bréf á föstudag þar sem þeir báðu hann um að loka fyrir auglýsingar á slíkum hlutum, sem eru greinilega hannaðir til þess að vera notaðir í vopnuðum átökum, til frambúðar.
Öldungadeildarþingmennirnir, sem allir eru Demókratar, sögðu fyrirtækið verða að taka þetta og fleiri skref til þess að axla ábyrgðina sem það bera á herðum sínum. Þeir sögðu fyrirtækið þurfa að viðurkenna það að óvinir Bandaríkjanna, innan ríkisins, hafi notað vörur fyrirtækisins og vettvanginn sem það býður upp á til þess að koma ólögmætum markmiðum sínum á framfæri.
Facebook lokaði í gær fyrir þann möguleika að fólk geti búið til viðburði á samfélagsmiðlinum sem fara eiga fram á stöðum eins og þinghúsinu í Washington DC og Hvíta húsinu. Þá hefur einnig verið lokað fyrir möguleikann að búa til viðburði sem fara fram í höfuðborgum ríkjanna 50. Þetta verður í gildi til og með 20. janúar.
Alríkislögreglan, FBI, hefur varað við því að búið sé að skipuleggja vopnuð mótmæli í Washington, og öllum 50 höfuðborgum ríkjanna í Bandaríkjunum, á næstu dögum.