Innlent

Fjölskylda flutt með þyrlu til Reykjavíkur eftir slysið

Sylvía Hall skrifar
Fólkið var flutt með þyrlum Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur á sjúkrahús.
Fólkið var flutt með þyrlum Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur á sjúkrahús. Vísir/Vilhelm

Þau þrjú sem voru í bílnum sem fór í sjóinn í Skötufirði voru flutt á sjúkrahús í Reykjavík með þyrlum Landhelgisgæslunnar nú eftir hádegi. Komið var með fólkið á Borgarspítalann á öðrum tímanum.

Tilkynning um slysið barst klukkan 10:16 í dag en vegfarendur náðu fólkinu upp úr sjónum og hlúðu að fólkinu þar til viðbragðsaðilar komu á vettvang um klukkutíma síðar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var fjölskylda í bílnum; karl, barn og kona. 

Ekki er unnt að greina frá líðan þeirra sem voru í bílnum að svo stöddu en rannsókn á tildrögum slyssins er hafin á vettvangi. Samkvæmt tilkynningu lögreglu er flughálka á veginum, lágskýjað og hægur vindur. Samhæfingarstöð almannavarna var virkjuð vegna slyssins.

Aðkoman erfið

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir vegfarendurna hafa unnið mikið þrekvirki, enda hafi það hlúað að farþegum bílsins við erfiðar aðstæður og veitt fyrstu hjálp. Hann hafði þó ekki upplýsingar um líðan þeirra.

„Það er eflaust ekki auðvelt. Þetta var erfið aðkoma og erfitt verkefni sem þeir þurftu að sinna fyrsta klukkutímann áður en aðstoð kom,“ segir Rögnvaldur. Aðstæður gerðu viðbragðsaðilum erfitt fyrir. 

„Það var gríðarlega mikil hálka og lágskýjað, rigning og slydda. Það gerði viðbragðsaðilum erfitt fyrir, þeir komust ekki eins hratt yfir út af hálkunni.“

Fyrstu viðbragðsaðilar komu á svæðið um klukkan ellefu. Rétt fyrir klukkan tólf lentu svo þyrlur Landhelgisgæslunnar með lækna og kafara. Þær fluttu svo fjölskylduna til Reykjavíkur á sjúkrahús.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.