Innlent

Tilkynningar um andlát eftir bólusetningu orðnar sjö

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar. Vísir/Egill

Lyfjastofnun hefur nú fengið sjö tilkynningar um andlát eftir fyrstu bólusetningu gegn kórónuveirunni fyrir áramót. Allir látnu eru aldraðir með undirliggjandi sjúkdóma á hjúkrunar- eða dvalarheimili.

Ríkisútvarpið greinir frá og hefur eftir Rúnu Hauksdóttur Hvannberg forstjóra Lyfjastofnunar. Vísir náði ekki tali af Rúnu við vinnslu þessarar fréttar en hún segir í samtali við Ríkisútvarpið að tilkynningar til Lyfjastofnunar um mögulegar aukaverkanir bólusetningar séu nú orðnar 61; þar af flokkist átta sem alvarleg tilvik, sjö þeirra andlát.

Ekkert liggur fyrir um tengingu andlátanna og bólusetningarinnar en tveir öldrunarlæknar rannsaka nú hvort líklegt sé að atvikin tengist bólusetningunni eða hvort þau tengist undirliggjandi sjúkdómum. Stefnt var að því í síðustu viku að frumniðurstöður rannsóknarinnar yrðu kynntar innan viku eða tíu daga.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við Vísi í dag að hann hefði ekki fengið niðurstöður enn.

„Við vorum að vonast eftir því að við fengjum niðurstöðu núna í vikunni og ég vona að það haldi,“ sagði Þórólfur.

Bent hefur verið á að sá hópur sem bólusettur var með fyrstu sendingu bóluefnis Pfizer samanstandi af öldruðum og hrumum einstaklingum sem dvelji á hjúkrunarheimilum, öldrunardeildum eða séu í dagdvöl. Að jafnaði látist átján einstaklingar á dvalar- og hjúkrunarheimilum á viku hverri.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.