Innlent

Tveir sérfróðir læknar rannsaka alvarlegu atvikin fimm

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir, ásamt Rúnu Hauksdóttur forstjóra Lyfjastofnunar, tilkynna um rannsóknina í sameiginlegri yfirlýsingu í dag.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir, ásamt Rúnu Hauksdóttur forstjóra Lyfjastofnunar, tilkynna um rannsóknina í sameiginlegri yfirlýsingu í dag. Vísir/vilhelm

Tveir sérfróðir og óháðir læknar á sviði öldrunar munu rannsaka gaumgæfilega fimm alvarleg atvik, þar af fjögur andlát, sem tilkynnt var um sem hugsanlegar aukaverkanir af bólusetningu við kórónuveirunni. Stefnt er að því að frumniðurstöður liggi fyrir innan viku til tíu daga.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá Ölmu Möller landlækni, Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og Rúnu Hauksdóttur Hvannberg forstjóra Lyfjastofnunar.

Ekkert bendir til beins orsakasamhengis

Bent er á í tilkynningunni að í öllum tilfellunum fimm sé um að ræða aldraða íbúa hjúkrunarheimila með undirliggjandi sjúkdóma. Fólkið var bólusett með bóluefni Pfizer gegn kórónuveirunni í síðustu viku en í ljósi þess að bóluefnið er nýtt hafi verið ákveðið að rannsaka þessi fimm alvarlegu atvik.

Tilgangur rannsóknarinnar sé að meta hvort líklegt sé að atvikin tengist bólusetningunni eða hvort þau tengist undirliggjandi sjúkdómum. Eins og sakir standa bendi ekkert til þess að beint orsakasamhengi sé á milli atvikanna og bólusetningarinnar.

Átján andlát á viku á hjúkrunarheimilum að jafnaði

Þess beri að geta að sá hópur sem bólusettur var með fyrstu sendingu bóluefnisins samanstandi af öldruðum og hrumum einstaklingum sem dvelji á hjúkrunarheimilum, öldrunardeildum eða séu í dagdvöl. Að jafnaði látist átján einstaklingar á dvalar- og hjúkrunarheimilum á viku hverri.

Líkt og áður segir verði rannsóknin gerð af tveimur sérfróðum læknum á sviði öldrunar og henni hraðað eins og kostur er. Stefnt er að því að frumniðurstöður liggi fyrir innan viku til 10 daga. Þegar niðurstöður rannsóknarinnar liggja fyrir verði skoðað hvort breyta þurfi nálgun að bólusetningum eldri einstaklinga.

Þá hefur verið kallað eftir upplýsingum frá Norðurlöndunum og frá Lyfjastofnun Evrópu um hvort sjá megi aukna tíðni dauðsfalla hjá eldri einstaklingum sem hafa verið bólusettir í öðrum Evrópulöndum undanfarna daga og vikur. Einnig fer fram sérstök tölfræðigreining á dauðsföllum í þessum hópi á vegum embættis landlæknis.


Tengdar fréttir

Segja umræðuna ekki eiga að snúast um færni starfsfólks

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins áréttar að blöndun og meðhöndlun bóluefnis Pfizer hafi að öllu leyti farið eftir leiðbeiningum markaðsleyfishafa og fyrirmælum Lyfjastofnunar og Embættis landlæknis. Umræða um blöndunina eigi ekki að snúast um færni starfsfólks heldur hvort farið sé eftir leiðbeiningum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×