Fótbolti

Heimir reifst við mótherja og hundsaði dómarana

Sindri Sverrisson skrifar
Heimir Hallgrímsson og Jonathan Kodjia skiptast á orðum eftir leikinn í gær.
Heimir Hallgrímsson og Jonathan Kodjia skiptast á orðum eftir leikinn í gær. skjáskot/@QFootLive

Heimi Hallgrímssyni, fyrrverandi landsliðsþjálfara í fótbolta, var heitt í hamsi eftir að hafa horft upp á sína menn í Al Arabi missa leik sinn við Al Gharafa niður í 1-1 jafntefli á sjöundu mínútu uppbótartíma í gær.

Eftir leik mátti sjá Jonathan Kodjia, hetju Al Gharafa, og Heimi rífast áður en þeim var stíað í sundur. Heimir gekk svo að dómaratríóinu en hundsaði það í stað þess að þakka fyrir leikinn, hélt göngu sinni áfram og klappaði fyrir stuðningsmönnum Al Arabi. Atvikið má sjá hér að neðan.

Aron Einar Gunnarsson var í liði Al Arabi sem var 1-0 yfir í þessum mikilvæga leik í katörsku úrvalsdeildinni, alveg fram að lokaspyrnu leiksins.

Leiknum var alveg að ljúka þegar Mehdi Torabi, leikmaður Al Arabi, meiddist og varð að fara af velli. Heimir setti varnarmanninn unga Jassim Jaber inn á og hann varð fyrir því óláni að fá dæmda á sig vítaspyrnu. Vítið var reyndar ekki dæmt fyrr en að myndbandsdómari sendi skilaboð og dómari leiksins skoðaði atvikið í varsjánni.

Fyrrnefndur Kodjia, fyrrverandi framherji Aston Villa, skoraði jöfnunarmarkið úr vítinu.

Með sigri hefði Al Arabi blandað sér af fullum þunga í baráttuna um Meistaradeildarsæti en liðið hafði unnið fjóra leiki í röð. Al Arabi er eftir fjórtán umferðir í 7. sæti með 19 stig en Al Gharafa í 3. sæti, sem dugar til umspils um sæti í Meistaradeild Asíu, með 24 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×