Innlent

Þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út að Ker­hóla­kambi vegna slasaðrar göngu­konu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út að Kerhólakambi vegna göngukonu sem slasaðist á fæti.
Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út að Kerhólakambi vegna göngukonu sem slasaðist á fæti. Vísir/Egill

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð út vegna göngukonu sem slasaðist á fæti við Kerhólakamb. Björgunarstarf fer nú fram úr lofti þar sem erfitt er að komast landleiðina vegna mikillar hálku.

Björgunarsveitir og sjúkraflutningamenn voru einnig kallaðir út. Þetta staðfesta Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar, og Ásgeir Erlendsson, hjá Landhelgisgæslunni, í samtali við fréttastofu.

Konan var á göngu efst á kambinum ásamt göngufélaga þegar hún slasaðist. Hún er að sögn Davíðs slösuð á fæti og gat því ekki gengið sjálf niður fjallið.

Þyrlusveitin var enn úti á flugvelli þegar útkallið barst eftir að hún hafði sinnt öðru útkalli, þar sem tvær göngukonur slösuðust á Móskarðshnúkum og voru fluttar á Landspítala. Þyrlusveitin fór því strax af stað að Kerhólakambi.

Aðstæður á Móskarðshnúkum voru svipaðar og á Kerhólakambi. Björgunarfólk þurfti að vera mjög vel búið þar sem mikill klaki og hálka var í fjallinu. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×