Innlent

Varð­skipið Þór kallað út þegar fóðurprammi sökk í vonsku­veðri

Eiður Þór Árnason skrifar
Vonskuveður er á svæðinu og voru aðstæður afar krefjandi.
Vonskuveður er á svæðinu og voru aðstæður afar krefjandi. Landhelgisgæslan

Áhöfnin á varðskipinu Þór var kölluð út á níunda tímanum í kvöld þegar mikill leki kom að stórum fóðurpramma sem þjónar fiskeldiskvíum í Reyðarfirði. Þegar skipið var komið á staðinn var pramminn orðinn fullur af sjó og marar hann nú í kafi, að sögn Landhelgisgæslunnar.

Talið er að olía sé um borð og hefur Umhverfisstofnun, Samgöngustofu og fleiri viðeigandi aðilum verið gert viðvart.

Fram kemur í tilkynningu frá Gæslunni að von sé á þjónustuaðilum í fyrramálið til hefja undirbúning þess að koma prammanum aftur á flot. Verður varðskipið Þór jafnframt til taks á Reyðarfirði ef á þarf að halda.

Varðskipið var statt í Reyðarfirði þegar stjórnstöð Landhelgisgæslunnar bárust upplýsingar frá starfsmönnum fiskeldisfyrirtækisins um að pramminn væri að sökkva. Að sögn Gæslunnar var þegar í stað haft samband við áhöfnina á Þór sem var kölluð út til aðstoðar. 

Vonskuveður er á svæðinu og aðstæður sagðar afar krefjandi. Varðskipsmennirnir sjósettu léttbát Þórs og höfðu öflugar sjódælur meðferðis. Þegar áhöfnin á Þór kom á staðinn var ekkert hægt að gera þar sem pramminn var orðinn fullur af sjó líkt og áður sagði.  Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.