Erlent

Maðurinn sem Obama tilnefndi í Hæsta­rétt verður dóms­mála­ráð­herra Bidens

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 68 ára Merrick Garland verður að öllum líkindum dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Joes Biden.
Hinn 68 ára Merrick Garland verður að öllum líkindum dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Joes Biden. EPA

Dómarinn Merrick Garland, sem Barack Obama tilnefndi sem hæstaréttardómara árið 2016 en þingmenn Repúblikana neituðu að staðfesta í embætti, verður dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Joes Biden.

Bandarískir fjölmiðlar greindu frá þessu í gær, um það leyti þegar stuðningsmenn Donalds Trump Bandaríkjaforseta ruddust inn í þinghúsið.

Hinn 68 ára Garland starfar nú sem forseti áfrýjunardómstóls í höfuðborginni Washington. Í forsetatíð Bills Clinton starfaði hann í dómsmálaráðuneytinu þar sem hann fór sem saksóknari fyrir fjölda stórra dómsmála.

Obama tilnefndi Garland til að taka við stöðu Antonin Scalia í Hæstarétti Bandaríkjanna þegar Scalia lést í byrjun árs 2016. Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjanna, neitaði hins vegar að setja atkvæðagreiðslu um skipan Garland á dagskrá þingsins. Sagði McConnell þá að rétt væri að nýr dómari yrði skipaður að loknum forsetakosningunum. Átta mánuðir voru þá til kosninganna.

Á síðasta ári reitti McConnell svo Demókrata til mikillar reiði þegar hann kom staðfestingu hinnar íhaldssömu Amy Coney Barrett sem arftaka hæstaréttardómarans Ruth Bader Ginsburg greiðlega í gegnum þingið, þó að innan við mánuður væri þá til forsetakosninga.

Valdamikil staða losnar

Ljóst má vera margir úr röðum frjálslyndra Demókrata eru ekki á eitt sáttir með valið á Garland, þar sem hann þykir ef til vill hófsamari en aðrir sem þóttu koma til greina.

Með valinu á Garland myndi losna dómarastaða í áfrýjunardómstólnum í höfuðborginni, sem almennt er talinn næstvaldamesti dómstóll landsins. Gæfist Demókrötum þá færi á að skipa yngri einstakling í stöðuna og hefur nafn hinnar fimmtugu Ketanji Brown Jackson þar verið nefnt til sögunnar.

CBS segir frá því að aðrir sem þóttu koma til greina sem dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Biden voru fyrrverandi öldungadeildarþingmaðurinn Doug Jones og Sally Yates fyrrverandi aðstoðardómsmálaráðherra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.