Erlent

Gríðarleg spenna í Georgíu: AP-fréttastofan lýsir yfir sigri Demókratans Raphaels Warnock

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Demókratinn Raphael Warnock hefur lýst yfir sigri en hann hefur 36 þúsund atkvæða forskot á Repúblikann Kelly Loeffler þegar 98 prósent atkvæða hafa verið talin.
Demókratinn Raphael Warnock hefur lýst yfir sigri en hann hefur 36 þúsund atkvæða forskot á Repúblikann Kelly Loeffler þegar 98 prósent atkvæða hafa verið talin. Getty/Michael M. Santiago

Enn er afar mjótt á mununum í aukakosningum til öldungadeildar Bandaríkjaþings sem fram fóru í Georgíu í gær.

Þegar 98 prósent atkvæða hafa verið talin hefur Demókratinn Raphael Warnock um 40 þúsund atkvæða forskot á Repúblikann Kelly Loeffler, eða sem nemur tæplega einu prósenti, og hefur AP-fréttastofan staðfest sigur hans.

Sjálfur lýsti Warnock yfir sigri í nótt en Loeffler neitaði þá að játa sig sigraða og kvaðst þess fullviss að hún gæti unnið.

Repúblikaninn David Perdue hefur enn naumara forskot á Demókratann Jon Osoff eða aðeins nokkur hundruð atkvæði, um hálft prósent, samkvæmt samantekt tölfræðimiðilsins FiveThirtyEight nú í morgun.

Vegna þess hversu mjótt er á mununum hefur FiveThirtyEight ekki viljað spá fyrir um úrslitin en bandaríska blaðið New York Times spáir því hins vegar að Demókratar vinni bæði öldungadeildarþingsætin.

Fari svo velta þeir Repúblikönum úr sessi og tryggja Demókrötum meirihluta í öldungadeildinni.

New York Times byggir spá sína á því að þau atkvæði sem á eftir að telja eru á svæðum sem hingað til hafa verið hliðholl Demókrötum. Til að mynda á eftir að telja þó nokkuð í úthverfum Atlanta. Talið er líklegra að meirihluti atkvæða þar falli Demókrötum í skaut.

Talning atkvæða hefur gengið vel eftir að kjörstöðum var lokað. Lengi framan af voru Warnock og Ossoff, með um tíu prósenta forystu en þegar um helmingur atkvæða hafði verið talin tóku Loeffler og Perdue, forskotið.

Þegar utankjörfundaratkvæðagreiðslu lauk höfðu 3,1 milljón Georgíubúa greitt atkvæði en samkvæmt útgönguspám var verulegur munur á því milli stuðningsmanna flokkanna tveggja hvort þeir sögðust treysta kosningunum eða ekki. Þannig sögðust þrír fjórðu kjósenda Repúblikanaflokksins ekki treysta kosningaferlinu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og teymi hans voru enda iðnir við að varpa fram kenningum um svindl á meðan kosningarnar stóðu yfir og gerði Trump því meðal annars skóna að kosningavélarnar virkuðu ekki sem skyldi.

Yfirmenn kosninganna sögðu hins vegar um að ræða vandamál sem hefði verið leyst vel áður en forsetinn tjáði sig á Twitter.

Fréttin var uppfærð klukkan 07:09.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.