Fótbolti

Þriðji sigurinn í röð hjá Aroni og Heimi

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Aron Einar og félagar á sigurbraut.
Aron Einar og félagar á sigurbraut. vísir/getty

Íslendingaliðið í Katar, Al Arabi, hefur heldur betur tekið sig saman í andlitinu að undanförnu en liðið vann sinn þriðja leik í röð í dag.

Al Arabi fékk Al Khor í heimsókn en fimm stigum munaði á liðunum í 9. og 11.sæti deildarinnar þegar kom að leiknum í dag.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson var á sínum stað í byrjunarliði Al Arabi og lék fyrstu 85.mínúturnar en liðinu er stýrt af Eyjamanninum Heimi Hallgrímssyni.

Íranarnir í liði Al Arabi, Mehrdad Mohammadi og Mehdi Torabi, sáu um að koma heimamönnum í 2-0 forystu í fyrri hálfleik. Varamaðurinn Abdulrahman Anad gulltryggði svo öruggan sigur Al Arabi með marki á 71.mínútu.

 Lokatölur 3-0 fyrir Al Arabi sem lyfti sér þar með upp í sjöunda sæti deildarinnar en alls leika tólf lið í efstu deildinni í Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×