Innlent

Segir ekki réttlætanlegt að flugeldum sé skotið upp í miklu magni

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Lungnalæknir segir ekki réttlætanlegt að flugeldum sé skotið upp í miklu magni með tilheyrandi svifryksmengun. Mikinn reykjarmökk lagði yfir höfuðborgarsvæðið vegna flugelda í gær og mældist hæsta gildið þrefalt yfir heilsuverndarmörkum.

Allar mælistöðvar á höfuðborgarsvæðinu nema ein mældu svifryksmengun yfir heilsuverndarmörkum í gær. Mörkin eru 50 míkrógrömm á rúmmetra en hæst mældist mengunin 165 í Húsdýragarðinum sem er þrefalt yfir mörkum.

Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segir tölurnar með því hæsta sem gerist. Mælingar sýna einnig að stór hluti svifryksins er fínt - sem hefur meiri áhrif á heilsu fólks en grófara vegryk sem kemur t.d. af slitnu malbiki.

Lungnalæknir segir svifryksmengun hafa töluverð áhrif á fólk með lungnasjúkdóma enda finni það fyrir auknum einkennum þegar mengunin er mikil.

„Síðan eru það langtímaáhrif að þegar svifrykið er svona fínt eins og það var núna þá berst það inn í blóðrásina og getur aukið líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum meðal annars,“ sagði Gunnar Guðmundsson, lungnalæknir.

Ekki réttlætanlegt

Hann segir ekki réttlætanlegt að flugeldum sé skotið upp í svo miklu magni með tilheyrandi mengun.

„Ég finn það núna að þegar fólk er búið að kynnast sóttkví og einangrun að það er miklu meiri samúð með fólki með lungnasjúkdóma heldur en áður og fólki finnst ekki eðlilegt lengur að þeir þurfi að sætta sig við það að vera í einangrun yfir áramót og geta ekki farið út og átt eðlileg áramót með sínum nánustu og ekki getað það árum og áratugum saman þannig ég held að fólk sé bara að vakna til lífins um þetta núna með betri skilningi,“ sagði Gunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×