Fótbolti

Gerrard og lærisveinar hans með aðra hönd á titlinum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Gerrard á hliðarlínunni í dag.
Gerrard á hliðarlínunni í dag. vísir/Getty

Glasgow Rangers, undir stjórn Steven Gerrard, steig stórt skref í áttina að skoska meistaratitlinum með sigri á erkifjendum sínum í Celtic í gær.

Eitt mark var skorað í leiknum en það gerði Callum McGregor, fyrirliði Celtic, þegar hann varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net. Skömmu áður hafði Nir Bitton, varnarmaður Celtic, fengið að líta rauða spjaldið.

Rangers hefur haft töluverða yfirburði í skosku úrvalsdeildinni í vetur, hefur unnið tuttugu leiki, gert tvö jafntefli og eru enn án taps.

Úrslitin í leik gærdagsins þýða að Rangers hefur nú nítján stiga forystu á toppnum en Celtic er einmitt í 2.sæti. Celtic á þó þrjá leiki til góða á Rangers en þeir hafa ekki þótt sannfærandi undir stjórn Neil Lennon á tímabilinu.

Það stefnir því allt í að Rangers vinni sinn fyrsta meistaratitil síðan árið 2011 en félagið er það sigursælasta í sögu skoska boltans með 54 meistaratitla gegn 51 meistaratitli Celtic.

Liverpool goðsögnin Steven Gerrard hefur stýrt Rangers frá 2018 en þrátt fyrir farsælan leikmannaferil tókst Gerrard aldrei að verða deildarmeistari, hvorki með Liverpool né LA Galaxy.

Tólf lið leika í skosku úrvalsdeildinni en þar eru þó leiknir 38 leikir líkt og í ensku úrvalsdeildinni. Fyrst leika öll lið deildarinnar þrefalda umferð og í kjölfarið mætast efstu sex liðin og neðstu sex liðin innbyrðis.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.