Innlent

Tölvuleikir draga úr glæpum unglinga

Snærós Sindradóttir skrifar
Unglingar nú til dags drekka minna, reykja minna, dópa minna og hafa minnkað afbrotin svo um munar.
Unglingar nú til dags drekka minna, reykja minna, dópa minna og hafa minnkað afbrotin svo um munar. NordicPhotos/Getty
Afbrotum ungmenna á aldrinum ellefu til sautján ára hefur fækkað gríðarlega á síðastliðnum sjö árum. Þetta kom fram á ársþingi norrænna afbrotafræðinga í Danmörku fyrr í þessum mánuði, en sömu þróun má sjá á öðrum Norðurlöndum.

Á höfuðborgarsvæðinu einu saman hefur afbrotum ungmenna fækkað um 55 prósent frá árinu 2007. Þetta er öfug þróun við fyrri hugmyndir fræðinga um að afbrotum fjölgi í efnahagsþrengingum.

Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, segir að rekja megi fækkun brotanna til lífsstílsbreytinga hjá ungu fólki.

„Í dag eru börn einfaldlega meira heima hjá sér. Stór hluti samskipta þeirra fer fram í gegnum tölvur og svo virðist sem internetið og tölvuleikir veiti þeim þá útrás sem þau þurfa.“ 

Helgi segir að jafnframt haldist fækkun afbrota í hendur við minnkandi neyslu áfengis og vímuefna hjá unglingum.

„Unglingar eru ekki lengur í þessu sjoppuhangsi. Þau eru í skipulögðu starfi allan daginn og upptekin við bæði skóla og félagslíf. Svo eru færri börn á hvern fullorðinn einstakling sem skýrir hvernig okkur fullorðna fólkinu tekst að fylgjast betur með ungmennunum okkar.“

Helgi Gunnlaugsson Afbrotafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands. Fréttablaðið/GVA
Fækkun afbrota birtist helst hjá drengjum þrátt fyrir að fækkun hafi átt sér stað hjá báðum kynjum.

„Einu sinni var það þannig að stelpur brutu einu sinni af sér á móti hverjum fjórum brotum stráka. Nú eru brot stráka tvö á móti hverju einu broti stelpna. Þeir eru enn helmingi líklegri til að brjóta af sér en það hefur augljóslega dregið saman með kynjunum,“ segir Helgi. 

Að sögn Helga hófst fækkun brota ungmenna í Bandaríkjunum árið 1996. Þá var hún oft tengd harðri refsistefnu sem rekin er þar í landi. Fækkun í brotum í öðrum Evrópulöndum, sérstaklega á Norðurlöndunum, afsannar þá kenningu. 

Helgi segir tölurnar koma mjög á óvart. „Þegar við sáum þessa fækkun fyrstu tvö árin gerðum við ekki mikið úr tölunum. Það hafa áður komið sveiflur í afbrotum ungmenna sem svo hafa jafnað sig. En þegar við erum að horfa upp á áberandi minnkun í sjö ár samfleytt verðum við að viðurkenna að það er eitthvað mikið að gerast. Tölurnar gefa tilefni til bjartsýni.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×