Fótbolti

Þjálfari St. Pat's: Við fengum færin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik liðanna í kvöld.
Úr leik liðanna í kvöld. mynd/hag
Peter Mahon, þjálfari írska liðsins St. Patrick's Athletic, á von á allt öðruvísi leik í Írlandi í næstu viku en ÍBV vann leik liðanna á Vodafone-vellinum í kvöld, 1-0. Írarnir voru oft nálægt því að skora í kvöld og segir Mahon að Eyjamenn hafi ekki skapað sér mikið í leiknum.

„Það eru mér mikil vonbrigði að við skyldum hafa tapað leiknum," sagði Mahon eftir leikinn. „Við fengum færi til að skora og vinna leikinn. Ég hef engar kvartanir yfir vítaspyrnudóminum enda fannst mér hann réttur. En þess fyrir utan fannst mér þeir ekki skapa sér mörg færi í leiknum."

„Þeir áttu tvö skot utan markteigs sem markvörður okkar varði mjög vel. En þar fyrir utan var ekki mikið að gerast hjá þeim, þó svo að þeir hafi verið meira með boltann."

„Við fengum því 4-5 færi í leiknum en það sem helst vantaði upp á okkar leik var hvernig við spiluðum fyrir framan mark andstæðingsins. Varnarleikurinn var ágætur."

„Möguleikar okkar fyrir seinni leikinn eru góðir. Ég á von á allt öðruvísi leik og ég er sannfærður um að ef okkur tekst að skora snemma þá getum við unnið leikinn og komist áfram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×