Persónuvernd hefur samþykkt að Vinnumálastofnun fylgist með IP-tölum þeirra sem staðfesta atvinnuleysisskráningu í gegnum heimasíðu stofnunarinnar. Þannig fylgist stofnunin með því hvort tilkynningar berast frá erlendum IP-tölum.
Konu, sem heimsótti ættingja sína erlendis meðan hún naut atvinnuleysisbóta og var í Svíþjóð þegar hún sendi staðfestingu til Vinnumálastofnunar, var neitað um atvinnuleysisbætur. Hún gæti ekki verið í virkri atvinnuleit á Íslandi meðan hún væri erlendis. Samkvæmt vinnureglum Vinnumálastofnunar er atvinnulausum ekki heimilt að dvelja erlendis um lengri eða skemmri tíma án þess að missa rétt til bóta.
Konan kærði til Persónuverndar og í úrskurði um málið er fallist á að þetta sé lögmæt meðferð persónuupplýsinga og eðlilegur þáttur í eftirliti Vinnumálastofnunar. Hins vegar þurfi stofnunin að gera atvinnulausu fólki grein fyrir því að þetta sé gert. Það megi til dæmis gera með því að birta um það auglýsingu á heimasíðu stofnunarinnar. -pg
Vinnumálastofnun fylgist með IP-tölum atvinnulausra
